Fjórar nýjar brýr í Elliðaárdal og 6 km af stígum

Hjólastíganetið í Reykjavík þéttist með ári hverju. Nokkrar stærri framkvæmdir …
Hjólastíganetið í Reykjavík þéttist með ári hverju. Nokkrar stærri framkvæmdir eru í vinnslu eða stefnt er að því að hefjast handa við á þessu ári. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Stefnt er að því að ráðast í fjögur ný verkefni sem snúa að göngu- og hjólastígum í Reykjavík á þessu ári, en áður hafði verið kynnt um níu verkefni sem eru í gangi eða þar sem vinna mun halda áfram. Samtals verður 1,35 milljörðum varið í þessi verkefni á árinu, en nýju framkvæmdirnar fjórar eru samtals tæplega 6 km að lengd auk tveggja brúa yfir Elliðaárnar. Aðrar tvær brýr voru þegar á teikniborðinu.

Hér verða skoðaðar þessar nýju framkvæmdir sem skipulags- og samgönguráð borgarinnar veitti í vikunni heimild til áframhaldandi undirbúnings, verkhönnun og gerð útboðsgagna fyrir. Einnig verður farið yfir hinar átta framkvæmdirnar sem eru í gangi, en mbl.is ræddi við Guðbjörgu Lilju Erlendsdóttur, starfandi samgöngustjóra borgarinnar um tímaramma í kringum hverja framkvæmd fyrir sig.

Yfirlitskort sem sýnir framkvæmdir á göngu- og hjólastígum þar sem …
Yfirlitskort sem sýnir framkvæmdir á göngu- og hjólastígum þar sem hefur verið samþykkt að halda áfram með eða eru jafnvel komnar af stað.

Mbl.is fjallaði á síðasta ári um stærri hjólaframkvæmdir sem Vegagerðin ætlar að ráðast í á árinu. Er þar um að ræða brú yfir Dimmu, sem fjallað verður um hér að neðan, auk fjögurra annarra verkefna. Lesa má nánar um þau verkefni hér. Þá er ótalið að stefnt er að því að framkvæmdir við brú yfir Fossvog hefjist á árinu, en hún verður hugsuð fyrir gangandi, hjólandi og almenningssamgöngur.

Skógarhlíð, frá Litluhlíð að Miklubraut

Síðasta árið hafa verið í gangi framkvæmdir við Litluhlíð, undir Öskjuhlíð, þar sem ný undirgöng eru nú komin undir götuna, en þar er bæði göngu- og hjólaleið, en stígar liggja nú þegar áfram til austurs upp Veðurstofuhæðina og út Bústaðarveg. Verkefnið sem nú á að taka áfram er hins vegar hvað tekur við í norðvesturátt, þ.e. út Skógarhlíðina.

Gert er ráð fyrir að göngu- og hjólastígurinn sem kemur …
Gert er ráð fyrir að göngu- og hjólastígurinn sem kemur af Veðurstofuhæðinni og er búið að leiða í gegnum undirgöng undir Litluhlíð haldi áfram niður Skógarhlíð, framhjá Þóroddsstöðum og moskunni. Teikning/Efla

Samkvæmt kynningu vegna málsins er gert ráð fyrir að endurhanna bílastæðalóð og breyta lóðarmörkum við Þóroddsstaði og moskuna í Skógarhlíð til að stígurinn geti legið niður meðfram mestallri austurhlið Skógarhlíðar. Til viðbótar á einnig að bæta stígatengingu milli Eskihlíðar og yfir í Skógarhlíð/Flugvallarveg. Samtals er gert ráð fyrir um 190 milljónum  vegna þessa framkvæmda, en lengd stíganna verður um 600 metrar. Guðbjörg segir að vonir séu bundnar við að framkvæmdir hefjist í sumar þó það sé sett fram með fyrirvara. Hún segir jafnframt að framkvæmdirnar muni ekki klárast á þessu ári.

Kemur þetta samhliða tillögum sem unnið er að með nýtt hverfisskipulag í Hlíðarhverfi, en þar hefur meðal annars verið horft til þess að auka byggð við norðurhluta Skógarhlíðar, breyta legu neðsta hluta Bústaðarvegar og gera Skógarhlíð að borgargötu með stórmarkaði. Allt tengist það jafnframt áformum um að leggja Miklubraut í stokk.

Stígarnir eiga að liggja niður Skógarhlíðina, en þar verður meðal …
Stígarnir eiga að liggja niður Skógarhlíðina, en þar verður meðal annars auðvelt að tengjast inn á stíg sem liggur að undirgöngum í átt að Valsheimilinu.Við enda Skógarhlíðar er svo áformuð uppbygging samhliða lagningar Miklubrautar í stokk. Teikning/Efla

Elliðaárdalur

Í Elliðaárdal er nú gert ráð fyrir nýjum og endurbættum göngu- og hjólastíg í efri hluta dalsins. Á hann að liggja að mestu þar sem núverandi stígur liggur sunnan megin við Elliðaárnar frá brúnni fyrir neðan Fylkissvæðið (Vatnsveitubrú) og að folf-vellinum fyrir neðan Fella- og Hólakirkju. Þar verður farið yfir árnar á nýjum stíg og brú og tengt við núverandi stíg sem er norðan við árnar. Á leiðinni er nokkuð brött brekka beint eftir Vatnsveitubrúna, með um 7-10% halla. Gert er ráð fyrir að sveigja aðeins frá ánni á þeim kafla og draga úr hallanum. Er um samtals 1,5 km leið að ræða sem verður skipt í tvo áfanga. Kostnaður við stígagerðina án brúar er áætlaður um 200 milljónir.

Nýi stígurinn á að liggja frá Vatnsveitubrúnni sunnan við Elliðaár …
Nýi stígurinn á að liggja frá Vatnsveitubrúnni sunnan við Elliðaár til að byrja með, en þvera þær svo í Grænugróf og tengjast inn á stíginn norðan megin. Teikning/Verkfræðistofa Bjarna Viðarssonar

Brúin í miðjunni verður í svokallaðri Grænugróf, en samkvæmt forhönnun verkefnisins sem sést í kynningu verður um lágreista brú að ræða með aðskildum stíg fyrir gangandi- og hjólandi og verður náttúra og umhverfi brúarinnar sett í fyrsta sæti við hönnunina. Gert er ráð fyrir að brúin verði samtals um 60 metrar að lengd og að kostnaður verði um 220 milljónir.

Brúin yfir Elliðaárnar við Grænugróf samkvæmt forhönnun.
Brúin yfir Elliðaárnar við Grænugróf samkvæmt forhönnun. Teikning/Verkfræðistofa Bjarna Viðarssonar

Við Dimmu er svo gamla vatnsveitustokksbrúin, en þar eru sitt hvoru megin nokkuð brattar tröppur sem geta reynst varhugasamar, sérstaklega í hálku, auk þess að geta reynst fólki í hjólastólum eða með barnakerrur talsverður farartálmi. Samkvæmt nýju áætluninni er gert ráð fyrir lágreistri brú með aðskildum stígum fyrir gangandi og hjólandi. Myndirnar sem birtar eru með þessari frétt eru úr forhönnun, en samkvæmt heimildum mbl.is má búast við nýrri útfærslu og teikningum á næstu vikum. Gert er ráð fyrir að brúin verði um 50 metrar að lengd og að kostnaður verði um 220 milljónir með stígatengingum.

Guðbjörg segir að stígagerð fyrir neðan Vatnsveitubrú og að stíflu séu langt komnar og klárist í sumar, en að öllum líkindum verði einnig byrjað á fyrri áfanga stígsins frá Vatnsveitubrú upp að Grænugróf. Brúin þar yfir og seinni áfanginn fái hins vegar að fara inn á næsta ár. Varðandi brú yfir Dimmu segir hún að væntingar bæði borgarinnar og Vegagerðarinnar séu að framkvæmdir hefjist á seinni hluta ársins og klárist árið 2023.

Brú yfir Dimmu, rétt fyrir neðan Breiðholtsbrautina. Fyrirhugaðar framkvæmdir eru …
Brú yfir Dimmu, rétt fyrir neðan Breiðholtsbrautina. Fyrirhugaðar framkvæmdir eru fyrir lok ársins. Gert er ráð fyrir nýrri útfærslu á næstu vikum og er myndin því aðeins til hliðsjónar hér. Teikning/Verkís
Tengingar við brúna yfir Dimmu gætu litið svona út, en …
Tengingar við brúna yfir Dimmu gætu litið svona út, en uppfærðar teikningar munu birtast á næstu vikum. Teikning/Verkís

Arnarnesvegur/Breiðholtsbraut

Rétt fyrir ofan Dimmu er gert ráð fyrir að göngu- og hjólastígurinn þar tengist inn á nýja brú sem reisa á yfir Breiðholtsbrautina vegna lagningar Arnarnesvegar frá Rjúpnavegi að Breiðholtsbraut. Er gert ráð fyrir sérstökum göngu- og hjólastíg yfir brúnna samsíða akandi umferð og alla leið að Rjúpnavegi, samtals um 2,3 km. Í kynningunni kemur reyndar fram að í skoðun sé að gera svokallað vistlok í stað brúar, en hægt er að lesa nánar um hugmyndafræði vistloka í þessari frétt. Áætlaður kostnaður vegna þessa verkefnis er áætlaður um 400 milljónir. 

Samkvæmt Guðbjörgu helst þessi framkvæmd í hönd við lagningu Arnarnesvegarins. Segir hún að stígagerðin sé alla jafna aftarlega í ferlinu og að ekki sé gert ráð fyrir að framkvæmdir við þá hefjist á þessu ári.

Með lagningu Arnarnesvegar frá Rjúpnavegi að Breiðholtsbraut er einnig gert …
Með lagningu Arnarnesvegar frá Rjúpnavegi að Breiðholtsbraut er einnig gert ráð fyrir aðskildum göngu- og hjólastíg. Á hann meðal annars að fara yfir Breiðholtsbrautina, eins og sést á myndinni, og tengjast inn á stígakerfið í Elliðaárdal, bæði upp í Fellahverfi og niður í Dimmu.

Krókháls – Dragháls

Í Hálsahverfinu í Árbæ er gert ráð fyrir nýjum hjólastíg í gegnum hverfið. Á hann að liggja frá Höfðabakka, fyrir ofan Mjólkursamsöluna, inn á Dragháls norðan megin. Á stígurinn að liggja út Dragháls og yfir endurbætt gatnamót við Hálsabraut og yfir á Krókháls og að göngustíg við undirgöngin sem liggja undir Suðurlandsveg í átt að Grafarholti. Er þetta samtals 1,3 km leið og er í skoðun að framkvæma hana í tveimur áföngum. Samtals er gert ráð fyrir að kostnaður vegna verkefnisins verði um 110 milljónir. Guðbjörg segir þessa framkvæmd komna skemur í undirbúningi en margar aðrar og að ekki sé gert ráð fyrir að þær hefjist á þessu ári, ef frá er talið að mögulega verði byrjað á stígum næst undirgöngunum undir Suðurlandsveg.

Þessi mynd sýnir í raun þrjár myndir. Efsta myndin er …
Þessi mynd sýnir í raun þrjár myndir. Efsta myndin er lengst til vesturs og sýnir tengingu frá Höfðabakka inn á Dragháls og yfir Bitruháls. Miðmyndin sýnir svo framhaldið út Dragháls og yfir nýja útfærslu gatnamóta við Hálsabraut. Neðsta myndin sýnir svo stígana meðfram Krókhálsi.

Verkefni sem þegar hafa verið kynnt eða eru í framkvæmd

Sörlaskjól – Faxaskjól

Leggja á nýjan göngu- og hjólastíg frá Ægissíðu samsíða Faxaskjóli og svo Sörlaskjóli að gatnamótum Nesvegar. Samtals er það 740 m stígur. Deiliskipulag er í auglýsingu en Guðbjörg segir óraunhæft að vænta þess að framkvæmdir hefjist á þessu ári.

Ný göngu- og hjólaleið meðfram Faxaskjóli og Sörlaskjóli er í …
Ný göngu- og hjólaleið meðfram Faxaskjóli og Sörlaskjóli er í farvatninu. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á næsta ári.

Ánanaust

Leggja á nýjan göngustíg við Ánanaust sem verður 850 metrar og hjólastíg sem verður 350 metrar. Á göngustígurinn að ná frá verslun Ellingsen, norðan við Sorpu og Olísstöðina og út að klóakhreinsistöðinni og tengjast þar núverandi göngustíg. Með hjólastíginn á að bæta upp í núverandi stíg sem liggur nær Ánanaustum og inn á hjólastíginn sem liggur frá hringtorginu við JL-húsið áfram vestur Eiðisgrandann. Guðbjörg segir að beðið sé eftir grjóti í sjóvarnargarðinn til að geta komið stígunum fyrir, en að vonast sé eftir að framkvæmdir fari af stað á árinu.

Rafstöðvarvegur frá Toppstöð að Bíldshöfða

Þessi stígur mun liggja frá göngu- og hjólabrúnni yfir Elliðaárnar við Toppstöðina í norður átt undir Miklubraut og að Bíldshöfða þar sem tenging verður við stíga sem liggja meðfram Elliðaárvogum sitt hvoru megin. Samtals er þetta 570 m leið og gerir Guðbjörg ráð fyrir að framkvæmdir klárist á þessu ári.

Tenging frá Bíldshöfða undir Miklubraut og að Toppstöðinni. Vinstri myndin …
Tenging frá Bíldshöfða undir Miklubraut og að Toppstöðinni. Vinstri myndin sýnir hvar stígurinn á að liggja frá Bíldshöfðanum að gamla hitaveitustokknum og sú síðari frá stokknum að Toppstöðinni.

Þverársel

Leggja á sameiginlegan göngu- og hjólastíg, um 500 m langan samsíða Þverárseli og við ÍR-heimilið. Segir Guðbjörg þetta tengjast gatnagerð við Álfabakka vegna uppbyggingar í Suður-Mjódd. Segist hún gera ráð fyrir þessari framkvæmd á árinu. Jafnframt tekur hún fram að stígurinn sem liggur samsíða Reykjanesbrautinni á þessum stað og tengir Kópavog og Mjódd verði áfram til staðar eftir að framkvæmdum í Suður-Mjódd lýkur. Þar verður sér stígur fyrir hjólandi vegfarendur og sér stígur fyrir gangandi vegfarendur í samræmi við deiliskipulag.

Við ÍR-heimilið við Þverársel er gert ráð fyrir sameiginlegum göngu- …
Við ÍR-heimilið við Þverársel er gert ráð fyrir sameiginlegum göngu- og hjólastíg.

Gufunes

Lagning á 450 m blönduðum göngu- og hjólastíg frá nýbyggingasvæðinu í Gufunesi upp að gatnamótum Borgarvegar og Strandavegar, en þar byrjar Hallsteinsgarður (listaverkagarðurinn). Stígurinn tengir nýju byggðina í Gufunesi við stígakerfi Grafarvogs. Guðbjörg segir að tilboð í framkvæmdina hafi verið opnuð 12. janúar og að framkvæmdir hefjist strax að loknum samningum. Gert sé ráð fyrir að þeim ljúki um mitt sumar.

Réttarholt, Réttarholtsvegur að Sogavegi

Heildarvegalengd framkvæmdarinnar er um 1,7 km frá Háaleitisbraut að Sogavegi meðfram hitaveitustokknum. Þegar er búið að leggja um 1 km, en Guðbjörg segir að gert sé ráð fyrir að leggja stíginn milli Réttarholtsvegar og Tunguvegar á þessu ári en verið sé að skoða hvort það náist niður að Sogavegi.

Sameiginlegur göngu- og hjólastígur meðfram hitaveitustokknum á Réttarholti. Áfangi 1 …
Sameiginlegur göngu- og hjólastígur meðfram hitaveitustokknum á Réttarholti. Áfangi 1 og 2 eru þegar klárir, frá Háaleitisbraut að Réttarholtsvegi, en fara á í áfanga þrjú á þessu ári.

Elliðaárdalur – Hitaveitustokkur 

Gamli hitaveitustokkurinn yfir Elliðaárnar, rétt fyrir ofan Miklubrautarbrúna, var fjarlægður nýlega í framkvæmdum Veitna á svæðinu. Voru lagnir lagðar í jörð og þótti ekki öruggt að hafa stokkinn áfram án viðhalds. Leggja á nýjan 250 m stíg þar sem stokkurinn lá áður, en auk þess þarf tvær brýr. Guðbjörg segir að um sé að ræða leið sem sé aðallega hugsuð sem gönguleið og býst hún við að lokið verði við stígagerðina í ár, en að brýrnar komi seint á þessu ári eða því næsta.

Hitaveitustokkurinn yfir Elliðaárnar er farinn og leggja á nýjan göngustíg …
Hitaveitustokkurinn yfir Elliðaárnar er farinn og leggja á nýjan göngustíg þar yfir, en til þess þarf tvær brýr. Framkvæmdir á þessu ári og því næsta.

Gatnamót Háaleitisbrautar og Bústaðavegs

Við gatnamót Háaleitisbrautar og Bústaðavegs, fyrir ofan Landspítalann í Fossvogi, á að koma upp aðskildum göngu- og hjólaleiðum auk tenginga við aðliggjandi stíga. Er þetta meðal annars eitt af síðari púslunum í að ná heilum hjólastíg meðfram öllum Bústaðavegi, en enn eru smá kaflar eftir. Verða gatnamótin endurhönnuð og verða ljósastýrðar göngu- og hjólaleiðir um gatnamótin á alla vegu. Guðbjörg segir að gera megi ráð fyrir framkvæmdum í sumar og að verkið klárist á árinu.

Gatnamótin við Bústaðaveg og Háaleitisbraut verða endurgerð á þessu ári.
Gatnamótin við Bústaðaveg og Háaleitisbraut verða endurgerð á þessu ári. Teikning/Hnit

Rofabær

Að lokum er það 400 metra kafli á Rofabæ, sem verður hluti af samtals 1,2 km aðskildum göngu- og hjólastíg við götuna, en samhliða er verið að gera Rofabæ að borgargötu. Verður fyrsti kaflinn, sem nú á að ráðast í, fyrir ofan Árbæjarskóla. Guðbjörg segir að trúlega verði byrjað á þessari framkvæmd í ár, en koma eigi í ljós hvort skipta verði áfanganum upp á milli ára.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert