Ása Helga Hjörleifsdóttir, leikstjóri, segist halda að flestir kannist við spurningar sem byrji á „hvað ef“ í tengslum við einhver augnablik í lífinu. Hún segir þetta vera eitt helsta umfjöllunarefni kvikmyndarinnar Svar við bréfi Helgu.
Kvikmyndin verður frumsýnd á morgun, 2. september, og er kvikmyndaaðlögun á vinsælli skáldsögu Bergsveins Birgissonar frá árinu 2010. Bókin naut mikilla vinsælda hér á landi og var tilnefnd var til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.
Í skáldsögu Bergsveins ritar gamall maður bréf til látinnar ástkonu sinnar og minnist þess þegar hann var ungur bóndi á 5. áratug síðustu aldar og varð ástfanginn af konunni á næsta bæ svo og þeirra afleiðinga sem það hafði í för með sér.
Ása Helga leikstýrir myndinni en hennar fyrsta kvikmynd í fullri lengd, Svanurinn, vakti mikla athygli. Hún segir Svar við bréfi Helgu vera ástarsögu, um ást í meinum, og sögu um það að vera manneskja og þær ákvarðanir sem maður þarf að taka í lífinu og standa með.
Bóndinn Bjarni og nágrannakonan Helga verða ástfangin en ná ekki saman af ýmsum ástæðum. Ása segir að spurningin „hvað ef ég hefði breytt öðruvísi?“ fari að ásækja þau bæði og kannski einna helst Bjarna.
„Ég held að allir eigi sér svona „hvað ef“-sögu í lífinu, bara með margt. Hvort sem það er ástin eða starfið eða löndin sem þú flytur til og áhrifin sem þetta allt hefur. Mér finnst eitthvað stórkostlegt við það hvað það eru margir möguleikar. En svo held ég að það geti verið mjög hættulegt að festast í þessu „hvað ef“, sem Bjarni er kannski svolítið fastur í.“
Ása Helga var gestur Ragnheiðar Birgisdóttur í Dagmálum. Þar má heyra meira um gerð kvikmyndarinnar, sýn Ásu og störf hennar innan kvikmyndageirans.