Íbúar fastir í verðlausum eignum á hættusvæðum

Aurskriðurnar féllu í desember 2020.
Aurskriðurnar féllu í desember 2020. mbl.is/Freyr

Margir íbúar á Seyðisfirði búa á hættusvæðum í eignum sem eru verðlausar vegna staðsetningar og því erfitt að selja. Erfitt getur reynst fyrir íbúa að taka ákvarðanir um framtíðina á meðan hættumat liggur ekki fyrir og margt er enn óljóst er varðar framtíð bæjarins.

Þetta kom fram í máli Tinnu K. Halldórsdóttur, yfirverkefnastjóra hjá Austurbrú, í erindi sem hún hélt á ráðstefnu sem fór fram á Grand Hót­el fyrr í dag. Þar var fjallað um áhrif lofts­lags­breyt­inga á sveit­ar­fé­lög­in í land­inu og til hvaða ráðstafana þarf að grípa til að laga íslenskt samfélag að þessum breytingum.

Í erindinu sagði Tinna frá niðurstöðum rannsóknar sem framkvæmd var í kjölfar aurskriðanna sem féllu á Seyðisfjörð í desember 2020. Spurningalisti var sendur á alla íbúa bæjarins og 14 djúpviðtöl tekin.

Íbúar bjartsýnir en vilja svör

Að sögn Tinnu voru íbúar á Seyðisfirði bjartsýnir um að bæjarfélagið risi upp úr áföllunum sem fylgdu aurskriðunum, mun sterkara og var mikill baráttuhugur í þeim. „En þeir sögðu samt að það væri mikil óvissa og að það eru ákveðnir hamlandi þættir, sem kæmu í veg fyrir að jafnvægi kæmist á á ný.“

Nefnir Tinna helst biðina eftir hættumati.

„Á meðan það liggur ekki fyrir, þá er erfitt fyrir íbúa að fara í framkvæmdir eða gera framtíðaráætlanir. Og fólk upplifir óvissu um hvort og hvar verður varið og hvernig það verði. Hvort byggðin verði færð, varin eða húsin keypt upp. Margir íbúar búa á hættusvæðum og í eignum sem eru verðlausar sökum staðsetningar.

Fólk er náttúrlega með ævisparnaðinn í húsunum sínum sem það fær ekkert fyrir. Það á mjög erfitt með að taka ákvörðun varðandi framtíð sína.“

Að sögn Tinnu þykir íbúum mörgum spurningum ósvarað og finnst þessi bið mjög erfið og telja að hún hafi hamlandi áhrif á jafnvægisleitina. 

Erfitt fyrir þá sem þurfa að bíða

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, segir að verið sé að vanda hættumatið eins og hægt sé, því sé mikilvægt að flýta sér ekki.

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra, á ráðstefnunni.
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra, á ráðstefnunni. Ljósmynd/Aðsend

„Á sama hátt hefur maður alveg skilning á því að það geti verið erfitt fyrir þá einstaklinga sem þurfa að bíða eftir niðurstöðum. Ég veit ekki hvort við höfum einhverjar lausnir á því,“ segir innviðaráðherra.

„Menn virðast falla í ólíka lausnahópa – eftir því hvernig tjónið verður og við þurfum að skoða það,“ bætir hann við.

mbl.is