„Við getum ekki bara hugsað um okkur“

Aukin skriðuföll eru meðal þeirra þátta sem huga þarf betur …
Aukin skriðuföll eru meðal þeirra þátta sem huga þarf betur að í náinni framtíð, vegna loftslagsbreytinga. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Áhrif loftslagsbreytinga munu stórauka hættuna sem steðjar að íbúum sveitarfélaga landsins vegna náttúruvár. Aukin flóðahætta, tíðari gróður- og skógareldar, breyting á árfarvegum og aukin skriðuföll eru meðal þeirra þátta sem huga þarf betur að. Þetta kom fram á ráðstefnu um áhrif lofts­lags­breyt­inga á sveit­ar­fé­lög­in í land­inu og aðlög­un­araðgerðir.

Yfirmaður skrifstofu loftslagsþjónustuaðlögunar hjá Veðurstofu Íslands segir mikla vinnu framundan við að aðlagast breyttum veruleika og að kortleggja þurfi öll svæði á Íslandi út frá náttúruvá. 

Þá þurfi einnig að draga saman upplýsingar sem fengust við gerð hættumats og gera þær aðgengilegri sveitarfélögum sem hætta steðjar að vegna ofanflóða eða annarrar náttúruvár.

Vilja vekja fólk til umhugsunar

Ráðstefna um áhrif lofts­lags­breyt­inga á sveit­ar­fé­lög­in í land­inu og aðlög­un­araðgerðir fór fram á Grand Hótel á mánudaginn. 

Á meðal þeirra sem tóku til máls á ráðstefnunni var Anna Hulda Ólafsdóttir, yfirmaður skrifstofu loftslagsþjónustuaðlögunar hjá Veðurstofu Íslands, sem hélt erindi sem bar yfirskriftina Áhrif og aðlögun að loftslagsbreytingum á Íslandi: Hvað er framundan?

„Það vantar alveg hiklaust að fólk geri sér enn þá betur grein fyrir þessu, en það er líka hluti af því sem við erum að reyna að gera með þessari skriftstofu, sem er árs gömul hjá Veðurstofunni, að fólk hafi betur skilning á því hvað þetta þýðir allt,“ segir Anna Hulda að ráðstefnu lokinni í samtali við mbl.is, spurð um hve meðvitaða hún telji Íslendinga um þau áhrif sem loftslagsbreytingar kunnu að hafa á land og þjóð.

Anna Hulda Ólafsdóttir.
Anna Hulda Ólafsdóttir. mbl.is/Sigurður Bogi

Hnattrænt vandamál

Að sögn Önnu Huldu stendur Ísland nokkuð vel þegar kemur að beinum áhrifum af völdum loftslagsbreytinga ef við berum okkur saman við aðrar þjóðir. Íslendingar þurfi þó klárlega að huga betur að áskorunum sem séu þvert á landamæri enda séu loftslagsbreytingar hnattrænt vandamál.

„Við getum ekki bara hugsað um okkur. Við erum öll svo tengd, við erum ekki bara að tala um vistfræðileg kerfi og náttúrufræðileg kerfi heldur líka félagskerfi og svo við tölum bara um matvælaöryggi – við erum ekkert rosalega sjálfstæð þegar að við horfum á það. Við þurfum að passa okkur að gera okkur ekki of háð ákveðnum þjóðum.“

Þá nefnir hún einnig raforku í því samhengi.

„Í rauninni gæti maður sagt að það að breyta orkukerfinu okkar meira í raforku sé bæði aðlögunaraðgerð og mótvægisaðgerð af því að vissulega er minni útblástur og umhverfisvænna að hafa raforku heldur en aðra óumhverfisvænni orkugjafa. En að sama skapi erum við að gera okkur minna háð öðrum og þar af leiðandi erum við að aðlaga okkur að því að geta tekist á við ýmsar áskoranir.“

„Þurfum að vera með betri spá“

Meðal þeirra sem tóku til máls á ráðstefnunni voru fulltrúar fjögurra sveitarfélaga. Lýstu þeir áhyggjum sínum yfir þeirri aukinni hættu sem steðjar að sveitarfélögunum vegna náttúruvár. Kallaði Brynja Dögg Ingólfsdóttir, umhverfis- og skipulagsstjóri sveitarfélagsins Hornafjarðar, m.a. eftir því að gerð yrði skýrari spá fyrir sveitarfélögin, svo hægt væri að sjá hvar hætturnar felist.

„Við erum ekki með lista yfir hvaða svæði er hættulegast út frá sveitarfélögum en það er alveg ljóst að við þurfum að vera með betri spá sem heldur utan um þessa náttúruvá sem við erum að glíma við,“ segir Anna Hulda.

Verkefni sem krefjist stöðugrar endurskoðunar

Hún segir að kortleggja þurfi öll sveitarfélög út frá náttúruvá þannig að hægt væri hálfpartinn að litakóða allt Ísland með tilliti til hættunnar sem steðjar að. Þá þurfi einnig að draga saman upplýsingar sem fengnar voru við gerð hættumats, og gera þær aðgengilegri sveitarfélögum.

Aðspurð segir Anna Hulda ómögulegt að segja til um hve lengi slíkt verkefni væri í framkvæmd en ljóst er að það verður tímafrekt og þyrfti auk þess stöðugt að vera í endurskoðun. 

„En einhvers staðar þarf maður að byrja því hættumat og áhættumat, þau gilda auðvitað alltaf bara í ákveðinn tíma.“

mbl.is