4,9 stiga skjálfti við Grímsey

Grímsey.
Grímsey. Ljósmynd/Auðunn Níelsson

Skjálfti af stærðinni 4,9 mældist um 12 km austnorðaustur af Grímsey kl. 04.01 í nótt.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofunni en þar segir að skjálftinn hafi fundist vel á Norðurlandi.

Fjöldi eftirskjálfta hefur fylgt í kjölfarið en hrinur á þessu svæði eru algengar og byrjaði hrinan í nótt um tvöleytið.

Engin merki eru um óróa á svæðinu en um 200 jarðskjálftar hafa mælst í hrinunni.

Samkvæmt óyfirförnum tölum frá Veðurstofunni urðu fleiri stórir skjálftar í kjölfar þess sem reið yfir klukkan fjögur. Klukkan 04.08 mældist einn sem var 4,8 að stærð 19,2 km norðnorðaustan af Grímsey og klukkan 04.49 mældist einn 4,5 að stærð 11,7 km austnorðaustan af Grímsey.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert