Íslenskan lykill að lífinu

Katrín Jakobsdóttir flytur stefnuræðu sína í kvöld.
Katrín Jakobsdóttir flytur stefnuræðu sína í kvöld. Skjáskot

„Lífið er nefnilega ekki bara vinna heldur svo margt annað og við eigum að bjóða þeim sem hingað koma tækifæri til að taka þátt í lífinu á Íslandi,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í stefnuræðu sinni á Alþingi í kvöld og rökstuddi þannig að samstillt átak stjórnvalda og atvinnulífsins þyrfti til að bjóða nýjum íbúum landsins upp á íslenskukennslu, helst á vinnutíma og þeim að kostnaðarlausu.

Sagði ráðherra að meðal þess sem fælist í því að taka þátt í lífinu í landinu væri til að mynda að syngja í kór, stunda íþróttir og útivist, taka þátt í stjórnmálum og félagsstarfi, fara í leikhús eða taka þátt í öðrum þeim athöfnum daglegs lífs er hugurinn stæði til.

„Íslenskukunnátta er mikilvægur lykill að því lífi – fyrir þau sem hingað koma en ekki síður fyrir okkur sem berum ábyrgð á að verja tungumálið og tryggja að það geti haldið áfram að vaxa og dafna,“ sagði Katrín.

Orkuskipti í almannaþágu

Greindi hún frá því að nýlega hefði hún farið átta mínútna flugferð í rafmagnsflugvél og ræddi í framhaldinu að flug á grænum orkugjöfum yrði það sem koma skyldi á 21. öldinni.

„Við hér á Íslandi erum í einstakri stöðu til að ná fram orkuskiptum í almannaþágu vegna þess að réttar ákvarðanir hafa verið teknar. Almenningur á helsta orkufyrirtæki landsins, Landsvirkjun, og því stendur ekki til að breyta. Þetta er eitt mikilvægasta innviðafyrirtæki landsins ásamt Landsneti – og við hljótum öll að vera þakklát fyrir að hugmyndir um að selja þessi mikilvægu fyrirtæki náðu ekki fram að ganga,“ sagði Katrín.

Nefndi hún svimandi hækkanir orkuverðs í Evrópu og að Íslendingar væru í öfundsverðri stöðu með sína ódýru raforku. „Þegar kemur að orkuskiptum og orkuframleiðslu þá er frumskylda okkar í þeim efnum við íslenskan almenning í nútíð og framtíð. Við þurfum að tryggja að öll orkunýting, hvort sem það er vatnsföll, jarðvarmi, vindurinn, sólarorka eða hvað annað, verði ábyrg, í sátt við náttúruna og í þágu almennings,“ hélt hún áfram.

35.000 íbúðir á tíu árum

Stríðið í Úkraínu hefði komið beint ofan í tveggja ára heimsfaraldur og verðbólga plagaði samfélög vestanhafs og austan. Sem betur fer væri atvinnuástand gott á Íslandi um þessar mundir og mestu skipti að stjórnvöld og seðlabanki væru samstillt og stjórnvöld styddu við þá þegna landsins sem ættu að vök að verjast.

„Félagslegar áherslur stjórnvalda í húsnæðismálum á undanförnum árum hafa skilað langtum fleiri almennum íbúðum sem hafa skipt sköpum fyrir húsnæðisöryggi tekjulægri hópa. Átakshópur þjóðhagsráðs lagði í vor fram ítarlegar tillögur að umbótum í húsnæðismálum með áherslu á aukið framboð á íbúðarhúsnæði, aukið húsnæðisöryggi, ekki síst þeirra sem eru á leigumarkaði, og endurbættan húsnæðisstuðning.

Ríkisstjórnin mun fylgja þessum tillögum eftir og í samstarfi við sveitarfélögin verða byggðar 35.000 íbúðir á næstu 10 árum til að mæta húsnæðisþörf allra hópa. Aðgerðirnar munu ekki aðeins auka húsnæðisöryggi heldur einnig draga úr sveiflum á húsnæðismarkaði en húsnæðisverð er einn af þeim þáttum sem hefur ýtt undir óstöðugleika hér í verðlagsmálum. Þess vegna forgangsröðum við húsnæðismálunum – til að auka lífsgæði fólks og tryggja meiri jöfnuð, bæði í upp- og niðursveiflum efnahagslífsins.“

Auknir fordómar dapurlegir

Þá ræddi ráðherra réttindi kynsegin fólks þar sem stórstígar framfarir hefðu átt sér stað á landinu, svo sem með löggjöf um kynrænt sjálfstæði og aukin réttindi trans og intersex barna.

„Á sama tíma er dapurlegt að skynja aukna fordóma og niðrandi orðræðu í garð hinsegin fólks. Það sýnir okkur svo ekki verður um villst að réttindabaráttu lýkur aldrei og alltaf er hætta á afturför,“ sagði Katrín og minntist á starfshóp um hatursorðræðu sem hóf störf í sumar og muni skila af sér álitsgerð fyrir áramót.

„Mannréttindi eru ekki sjálfsögð og við getum ekki tekið þeim sem gefnum. Við eigum að stefna að því að Ísland verði framúrskarandi á sviði mannréttinda. Þannig verður samfélagið okkar manneskjulegra, betra og þróttmeira, hvort sem horft er til efnahagsmála, þróunar lýðræðis og stjórnmála eða menningar og lista,“ sagði forsætisráðherra.

mbl.is