„Fyrirmynd í sýndarmennsku og að loka augunum“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Stefnuræða forsætisráðherra var nær fullkomin kynning á því sem einkennir þessa ríkisstjórn. Þar snýst allt um umbúðir fremur en innihald og um yfirlýst markmið fremur en raunveruleg áhrif,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins í stefnuræðu sinni fyrir Alþingi í dag.

Sigmundur nefndi loftlagsmarkmið ríkisstjórnarinnar sem dæmi um þetta og sagði að lögfesta loftlagsmarkmiðin væri skýrt dæmi um hve ráðandi umbúðarmennskan sé orðin í störfum ríkisstjórnarinnar að hans mati.

„Stjórnin státar sig af því að setja sífellt erfiðari loftlagsmarkmið en án raunhæfra leiða til að ná þeim. Þegar þeim reynist erfitt að finna leiðirnar til að ná markmiðunum var gripið til þess ráðs að lögfesta markmiðin.“ 

Spurði Sigmundur þá hvort að það mætti búast við því að íslenska ríkisstjórnin myndi státa sig af árangri í íþróttum með því að setja lög um að innan tuttugu ára verði Íslendingar Evrópumeistarar í fótbolta bæði í karla- og kvennaflokki.

Gagnrýnir fyrirhugað bann við olíuleit

Sigmundur gagnrýndi að auki Katrínu Jakobsdóttir forsætisráðherra fyrir að boða bann við gasvinnslu og olíuleit í íslenskri lögsögu. Katrín tilkynnti í stefnuræðu sinni í dag að hún ætli leggja fram frumvarp um bann við olíuleit í efnahagslögsögunni.

„Ríkisstjórnin ætlar að koma í veg fyrir að Íslendingar geti nýtt og boðið fram eigin auðlindir en eftirláta þess í stað öðrum að sinna óhjákvæmilegri orkuþörf og væntanlega ekki hvað síst Rússum,“ sagði Sigmundur við þessu.

Sigmundur gefur þá lítið fyrir orð Katrínar um að með þessu verði Ísland að fyrirmynd fyrir aðrar þjóðir.

„Fyrirmynd í hverju? Fyrirmynd í sýndarmennsku og að loka augunum fyrir raunveruleikanum.“

mbl.is