Kveðst hvorki í liði með lögreglunni né gegn blaðamönnum

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra. Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kveðst hvorki í liði með lögreglunni né í liði gegn blaðamönnum í pistli sem hann skrifar á Facebook í dag.

Kveikjan að pistlinum er ítarleg grein sem Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans og blaðamaður, birti á Kjarnanum í dag þar sem hann rekur málaferla í umfjöllun Kjarnans og annarra fjölmiðla um hina svokölluðu „Skæruliðadeild Samherja“.

Í greininni ásakar Þórður Bjarna um fordæmalausa og grafalvarlega færslu sem Bjarni birti á Facebook daginn eftir að fimm blaðamenn voru boðaðir í skýrslutöku af lögreglu og að þar væri valdamikill stjórnmálamaður að skipta sér af lögreglurannsókn á blaðamönnum.

Segir forsendur fréttaflutnings rangar

Þórður segir Bjarna m.a. hafa stutt aðgerðir lögreglu í málinu, en blaðamennirnir fimm fengu allir stöðu sakbornings vegna gruns um að hafa brotið gegn friðhelgi einkalífs.

Bjarni segir að þeir sem fjölluðu um málið mættu draga lærdóm af því hvernig úr hefur spilast. „Hvernig málið var meðhöndlað á þeim tíma sem þeir einir sem boðaðir höfðu verið til skýrslutöku fengu að leggja upp allar forsendur fréttaflutnings,“ skrifar Bjarni.

Þá segist hann hafa bent á að fréttir af málinu byggðust mest á getgátum um það hvers konar brot lögreglan væri að rannsaka og að síðar hafi komið í ljós að forsendur fréttaflutnings á málinu, sérstaklega á RÚV, hafi verið rangar og að sama gildi um ályktun félaga blaðamanna og fréttamanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert