Skoða tengsl mannanna við erlend öfgasamtök

Mennirnir voru handteknir í gær.
Mennirnir voru handteknir í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Verið er að skoða hvort að einstaklingarnir sem handteknir voru í gær, vegna rannsóknar lögreglu er varðar grun um undirbúning að hryðjuverkum, tengist erlendum öfgasamtökum. 

Lögreglan á Íslandi er í samtali við erlend löggæsluyfirvöld. Tveir mannanna eru í gæsluvarðhaldi og eru yfirheyrslur rétt að byrja.

Þetta kom fram á upp­lýs­inga­fundi rík­is­lög­reglu­stjóra sem var boðaður í dag vegna um­fangs­mik­illa rann­sókna og aðgerða embætt­is­ins. 

Virkja öll tengslanet

Karl Stein­ar Vals­son, yf­ir­lög­regluþjónn hjá embætti rík­is­lög­reglu­stjóra, Grím­ur Gríms­son, yf­ir­lög­regluþjónn hjá lög­regl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu og Sveinn Ingi­berg Magnús­son, yf­ir­lög­regluþjónn hjá héraðssak­sókn­ara, voru á fund­in­um.

„Við erum að virkja öll þau tengslanet sem við höfum einfaldlega vegna þess að við stöndum frammi fyrir atburðarás – atburðum og fyrirhuguðum áætlunum sem eru ekki í þeim takti sem við höfum séð áður. Þannig að við að sjálfsögðu leitum þangað sem við teljum að við þurfum,“ sagði Karl Steinar.

Fram hefur komið að upplýsingar í rannsókn lögreglu hafi leitt til gruns um að í undirbúningi væru árásir gegn borgurum ríkisins og stofnunum þess. Spurður hvort að málið beinist gegn ákveðnum hópum eða gagnvart einstaklingum, sagði Karl Steinar að lögreglan ætlaði að sleppa því að svara þessari spurningu í augnablikinu.

Telja sig vera með stóran hluta vopnanna

Sérsveit ríkislögreglustjóra og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtóku í gær fjóra menn vegna gruns um skipulagða glæpastarfsemi og viðamikil vopnalagabrot. 

Eru mennirnir m.a. grunaðir um að hafa framleitt vopn með þrívíddarprentara. Þá hafi einhver vopn hugsanlega verið flutt inn. Lögregla telur sig vera með stóran hluta vopnanna í sinni vörslu. Hún hefur þegar komist yfir tugi vopna og þúsundir skotfæra.

Lögregla vildi ekki svara hvort að mennirnir sem handteknir voru hefðu áður komið við sögu lögreglu. Þá sagðist lögreglan ekki geta útilokað að rannsóknin tengdist fleiri einstaklingum.

Rannsóknin á viðkvæmu stigi

„Lögreglan sem slík er ákaflega ánægð með það að hafa náð að koma veg fyrir það að ekki yrði meira úr þessum hugmyndum sem að okkur virtist blasa við að þessir aðilar hefðu um – að framkvæma einhvers konar alvarlegt afbrot,“ sagði Grímur.

Spurður hvort lögregla hefði upplýsingar um hvenær mennirnir ætluðu að láta til skarar skríða kvaðst Grímur ekki geta veitt frekari upplýsingar. Rannsóknin væri á viðkvæmu stigi og hægt væri að segja mjög lítið um hana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert