Stígur fram og svarar gagnrýni á Sem á himni

Unnur Ösp Stefánsdóttir leikstýrir sýningunni Sem á himni.
Unnur Ösp Stefánsdóttir leikstýrir sýningunni Sem á himni. Ljósmynd/Saga Sig

Unnur Ösp Stefánsdóttir segir íslenskt samfélag vera stutt komið þegar kemur að réttindum og virðingu fatlaðs fólks. Unnur leikstýrir sýningunni Sem á himni í Þjóðleikhúsinu og hefur hún ákveðið að stíga inn í umræðu um gagnrýni sem sýningin hefur fengið.

Gagnrýnin, sem birtist á vef ríkisútvarpsins í gær, snýr meðal annars að því að ófatlaður leikari hafi verið fenginn til þess að leika fatlaða persónu, Dodda, og að persónan ýti undir neikvæðar staðalmyndir.

„Hér er persóna sem ýtir undir neikvæðar staðalímyndir um fatlað fólk sem eilíf börn sem eru upp á aðra komin,“ segir meðal annars í gagnrýninni.

Unnur svarar þessum hluta gagnrýninnar:

„Málefni fatlaðra standa mér persónulega mjög nærri. Ég þekki það af eigin raun hvernig er að eiga fatlað barn sem tekst á við sambærilegar ef ekki návæmlega sömu áskoranir og persóna Dodda, fatlaða drengsins í umræddu verki,“ skrifar hún í Facebook-færslu.

Getur verið brútal, ljótt og erfitt

„Að eiga fatlað barn er yndislegt og mín stærsta gjöf í lífinu en það getur líka verið brútal, ljótt, erfitt, vandæðalegt, banalt og óþægilegt.

Það sem særir því óendanlega mikið í þarfri og magnaðri umræðu sem ég fagna manna mest er sú tilfinning mín að þegar við sýnum sannleika þessarar persónu í sinni tærustu mynd, þá finnst okkur áhorfendum erfitt, jafnvel óbærilegt að horfa á það. Það er ekki rétt gert, það er leikið af röngum aðila, við hefðum átt að milda, breyta, sleppa, strika hlutverkið.“

Unnur segist ekki hafa viljað milda þær áskoranir sem persónan fæst við, þar sem þær séu daglegt brauð í lífi sumra.

„Ég vildi alls ekki draga úr þeim ömurlegu fordómum sem persónan mætir af samfélaginu í sögunni. Ég valdi að fá næman listamann til að túlka þessa persónu af virðingu, skilningi og kærleika. Það hryggir óendanlega ef það kemur ekki yfir til allra.“

mbl.is