Mega flytja lömb með verndandi arfgerð gegn riðu

Samkvæmt fyrri ákvæðum reglugerðarinnar var flutningur lamba óheimill inn á …
Samkvæmt fyrri ákvæðum reglugerðarinnar var flutningur lamba óheimill inn á svæði þar sem greinst hafði riða. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Að ósk Matvælastofnunar hefur Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra samþykkt breytingu á reglugerð um að flytja megi á milli landsvæða lömb sem hafa verndandi eða mögulega verndandi arfgerð gegn riðu. Samkvæmt fyrri ákvæðum reglugerðarinnar var flutningur lamba óheimill inn á svæði þar sem greinst hafði riða. 

Fram kemur í tilkynningu frá Stjórnarráðinu að til að vinna megi gegn sjúkdómnum telji Matvælastofnun mikilvægt að hægt sé að flytja lömb á fæti frá einu riðusvæði til annars að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Meðal annars er sett skilyrði um að það sóttvarnarsvæði sem lömbin koma frá sé minna sýkt af riðu en svæðið sem þau eru flutt á, eða að útbreiðsla riðu á svæðunum sé sambærileg.

Meiri eftirspurn en framboð

Þá kemur fram að þar sem ætla megi að eftirspurn eftir þessum lömbum sé meiri en framboð hafi Matvælastofnun skilgreint hvaða svæði og bæir skuli njóta forgangs við kaup á lömbum með verndandi arfgerð gegn riðu.

„Það er sérstakt fagnaðarefni að íslenskir sauðfjárbændur eygi nú þann möguleika að vinna bug á riðu, sjúkdómi sem hefur valdið gríðarlegu tjóni í rúmlega 140 ár í íslenskri sauðfjárrækt. Sem matvælaráðherra reyni ég að styðja eftir besta megni allar aðgerðir sem hjálpa okkur að ná því marki,“ er haft eftir Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra í tilkynningunni.

mbl.is
Loka