Sjór flæðir yfir götur og inn í hús á Akureyri

Allt að 15 til 20 sentimetra djúpt vatn er inni …
Allt að 15 til 20 sentimetra djúpt vatn er inni í sumum húsum. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Sjór hefur gengið á land á Akureyri og flæðir yfir götur og inn í hús niðri á Eyrinni. Þar sem staðan er hvað verst er um 15 til 20 sentimetra djúpt vatn inni í húsunum.

Unnið er að því að hreinsa frá niðurföllum og dæla vatni, en það gengur hægt að sögn Aðalsteins Júlíussonar, aðalvarðstjóra hjá lögreglunni á Akureyri.

„Það er svo gríðarlegur áhlaðandi hérna, það kemur bæði upp á bryggjurnar og upp úr niðurföllum, yfir garðana og yfir Eyrina. Það er mjög mikið vatn hérna hjá okkur og það er verið að vinna í því að dæla þessu burt en það gengur hægt. Það er aðeins farinn að sjást einhver smá árangur,“ segir Aðalsteinn í samtali við mbl.is

Vatn hefur flætt inn í fjölda bygginga á Eyrinni.
Vatn hefur flætt inn í fjölda bygginga á Eyrinni. mbl.is/Þorgeir Baldursson

„Það er upp í 15 til 20 sentimetra djúpt vatn inni í sumum húsum. Þetta er það mesta sem við höfum séð hérna,“ bætir hann við.

„Okkar fólk og björgunarsveitir eru á fullu að hreinsa upp úr niðurföllum, niðurföllin eru orðin mikið stífluð. Það er unnið í því að finna niðurföll og hleypa niður.“

Unnið að verðmætabjörgun 

Aðalsteinn segir þetta gerast bæði vegna sjávarstöðunnar sem er hærri en gengur og gerist og mikils áhlaðanda. „Það stendur hérna beint inn fjörðinn. Gæslan hafði varað við hárri sjávarstöðu og Veðurstofan, en þetta er sérstaklega slæmt hérna niðri á Oddeyrinni.“

Hann segir bæinn hafa gert einhverjar ráðstafanir vegna viðvarana um háa sjávarstöðu, en sjógangurinn sé svo mikill að það hafi ekki dugað til.

Sjór hefur flætt hefur inn í einhver íbúðarhús en aðallega er um að ræða atvinnuhúsnæði.

„Það eru fiskvinnslur þarna niður frá, vélsmiðjur, söluaðilar með búvélar og það er allur fjárinn þarna niður frá, þannig að það eru mikil verðmæti undir. Það er verið í verðmætabjörgun. Bjarga hlutum upp fyrir þurrt.“

Óvenju há sjávarstaða og mikill áhlaðandi veldur því að sjór …
Óvenju há sjávarstaða og mikill áhlaðandi veldur því að sjór gengur á land. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Þær götur sem mest hefur flætt yfir eru Norðurgata, Gránufélagsgata og Eiðsvallagata og biðlar lögregla til fólks að aka ekki um þær götur.

Rafmagnslaust var á Akureyri í skamman tíma rétt eftir hádegi en rafmagn er nú komið aftur á bæinn, að sögn Aðalsteins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert