Tókust á um auknar valdheimildir lögreglu

Vilhjálmur Árnason og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir voru gestir Egils Helgasonar …
Vilhjálmur Árnason og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir voru gestir Egils Helgasonar í Silfrinu í dag. Samsett mynd

Auknar valdheimildir lögreglu voru til umræðu í stjórnmálaumræðuþættinum Silfrinu í morgun. Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, sagði þar aukinn fjölbreytileika samfélagsins gefa tilefni til að endurskoða heimildir lögreglu.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, segir umræðu um auknar valdheimildir í tengslum við rannsókn á meintu hryðjuverki vera misnotkun á máli sem lítið sé vitað um að svo stöddu.

Segir auknar valdheimildir ýta undir öfga fremur en draga úr þeim

Hún segir rannsóknir hafa sýnt fram á að forvirkar rannsóknarheimildir dragi ekki úr öfgavæðingu heldur ýti undir hana. Hún segir forvirkar rannsóknarheimildir aukinheldur fela alla jafna í sér mismunun þar sem tilteknir hópar séu líklegri til þess að verða andlag slíkra rannsókna.

Vilhjálmur benti á að lögreglan hafi starfrækt greiningarstarfsemi um tíma og hefði verið undirbúin og brugðist skjótt við. Hann segir umræðu um auknar afbrotavarnir hafa hafist áður en þetta mál skaut upp kollinum og vill því ekki beintengja þetta tvennt.

Auðveldara að týnast í fjöldanum

„Við megum ekki ræða þetta eingöngu út frá þessu eina máli heldur þurfum við að ræða þetta bæði út frá skipulagðri afbrotastarfsemi og aukinni hryðjuverkaógn og þessari breytingu í samfélaginu sem lögreglan er búin að vera að láta okkur vita af undanfarin ár.

Samfélagið er orðið fjölbreyttara og það er auðveldara að týnast í fjöldanum“

Inntur svara um hvaða breyting það sé segir Vilhjálmur það tengjast alþjóðavæðingu samfélagsins.

Vilhjálmur Árnason í myndveri Ríkisútvarpsins í dag.
Vilhjálmur Árnason í myndveri Ríkisútvarpsins í dag. Skjáskot/RÚV

 „Það sem er að gerast úti í heimi er bara miklu nær okkur hér líka og ef eitthvað gerist út í heimi eru strax komnar upplýsingar um það bæði á samfélagsmiðlum og í erlendum sjónvarpsstöðum og allt er orðið miklu opnara.

Svo er samfélagið okkar líka orðið fjölbreyttara og stærra og fjölbreytileikinn meiri. Hér áður fyrr þá var í samfélaginu kannski þetta sjálfvirka eftirlit, ef eitthvað var óeðlilegt einhvers staðar þá gat fjölskyldan almennt farið og tekið utan um það. Nú er auðveldara að týnast í fjöldanum og fjölbreytileikanum. Það er líka öðruvísi samfélag,“ sagði Vilhjálmur í þættinum. 

Ósannindi að málinu sé beitt til þess að koma breytingum í gegn

Vilhjálmur segir að það þurfi að bregðast við þessari þróun og hafnar því að það sé verið að beita máli um skipulagningu hryðjuverka til þess að auka valdheimildir lögreglu.

Þórhildur Sunna gagnrýndi málflutning Vilhjálms eftir þáttinn á Facebook-síðu sinni og sagði hann vera illa dulbúna leið til þess að blása upp ótta við innflytjendur og sömuleiðis staðfesting þess sem margir óttast; að eftirlitsheimildum lögreglu verði sérstaklega beint að innflytjendum og öðrum jaðarsettum hópum í samfélaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert