Segja Önnu hafa reynt einhliða að skipta Páli út

Anna Dóra, fyrrverandi forseti Ferðafélags Íslands, er sökuð um ólýðræðisleg …
Anna Dóra, fyrrverandi forseti Ferðafélags Íslands, er sökuð um ólýðræðisleg vinnubrögð í pósti stjórnar til félagsfólks.

Fullyrt er í pósti stjórnar Ferðafélags Íslands, sem sendur var til félagsfólks í dag, að fljótlega eftir að Anna Dóra Sæþórsdóttir tók við við sem forseti félagsins hafi farið að bera á ólýðræðislegum vinnubrögðum hennar. Hún hafi meðal annars hafið viðræður við framkvæmdastjóra um starfslok hans, án vitundar stjórnar.

Þá hafi hún hvorki viljað fá utanaðkomandi ráðgjafa til að reyna að leysa þann samskiptavanda sem skapast hafði né halda sig til hlés á meðan reynt var að leysa hann.

Anna Dóra sagði af sér sem forseti Ferðafélags Íslands í gær og vandaði stjórninni ekki kveðjurnar í færslu sem hún ritaði á Facebook. Sagðist hún ekki geta starfað í félagi þar sem stjórnarhættir og siðferðisleg gildi, sem gengju þvert á hennar eigin gildi, réðu ríkjum.

Í póstinum til félagsfólks segir að stjórninni hafi ekki þótt rétt að greina félagsfólki frá vandamálunum í þeirri von að hægt yrði að leysa þau með farsælum hætti með hagsmuni félagsfólks að leiðarljósi. Það hafi hins vegar orðið ljóst eftir tilkynningu Önnu Dóru að svo yrði ekki.

Báðu Önnu Dóru að halda sig til hlés

Tekið er fram að mikill kraftur hafi fylgt Önnu Dóru og hún hafi í upphafi notið stuðnings og trausts allra í stjórn. Meðal annars hafi verið farið í stefnumótandi vinnu og verklagsreglur um góða stjórnarhætti endurbættar og verkferlar er snerta einelti, kynferðislega eða kynbundna áreitni og ofbeldi uppfærðir.

Fljótlega hafi hins vegar farið að bera á ólýðræðislegum vinnubrögðum forseta.

„Stærsti ásteytingarsteinninn var þegar forseti vildi einhliða skipta út framkvæmdastjóra okkar, Páli Guðmundssyni, án þess að fyrir því lægju málefnalegar ástæður og engin formleg tillaga um slíkt hefði verið borin undir stjórn. Án samráðs ákvað forseti engu að síður að hefja viðræður um starfslok við framkvæmdastjórann og það án vitundar stjórnar. Þegar stjórnin komst að því, og lýsti sig ósammála, urðu öll samskipti við forseta mjög erfið. Í framhaldi tók við tímabil þar sem framkoma forseta gagnvart framkvæmdastjóra gerði honum erfitt að sinna starfi sínu.“

Í byrjun júní síðastliðins hafi stjórninni orðið ljóst að ekki yrði búið við óbreytt ástand og var því óskað eftir því við Önnu Dóru að hún héldi sig til hlés um stundarsakir á meðan unnið væri að því að leysa samskiptavandann. Því hafi hún hafnað, sem og að leita til utanaðkomandi ráðgjafa til að bæta samskiptin.

Framkvæmdastjóri kvartaði undan einelti 

„Á sama tíma hafði framkvæmdastjóri lagt fram formlega kvörtun vegna eineltis af hálfu forseta og voru nýuppfærðar verklagsreglur Ferðafélagsins í eineltismálum því virkjaðar og leitað aðstoðar utanaðkomandi sérfræðinga. Í kjölfar þess barst stjórn tölvupóstur frá forseta með ávirðingum um að rekstur félagsins væri í ólestri. Þessar fullyrðingar voru alveg á skjön við ræðu forseta á aðalfundi í mars sl. og ársskýrslu stjórnar sem samþykkt var á sama fundi, en þar kom einmitt fram að rekstur félagsins stæði einstaklega vel. Til þess að bregðast við þessum athugasemdum forseta ákvað stjórn að fá álit endurskoðanda sem staðfesti að reksturinn væri traustur og fjárhagsstaða sterk og þau gögn lögð fyrir á stjórnarfundi þann 28. júní sl.“

Þá hafi Anna Dóra einnig komið með athugasemdir við hvernig haldið hefði verið á málum í tengslum við kynferðislega áreitni. Hún hafi ýmist gagnrýnt að framkvæmdastjóri hefði eytt of miklum tíma í að sinna slíkum málum eða að of lítið hefði verið gert.

„Allt þetta ár hefur stjórn Ferðafélagsins leitað allra leiða til að leiða þessi samskiptamál við forseta til lykta með farsælum hætti fyrir félagið. Okkur þykir miður að það tókst ekki. Stjórnin mun engu að síður halda áfram að leita leiða til þess að tryggja frið um starfsemi félagsins og verða þessi mál tekin til umræðu á næsta aðalfundi þess.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert