Hundur beit hlaupara

Óskað var eftir aðstoð lögreglunnar í hverfi 104 upp úr klukkan fimm í gær eftir að hundur hafði stokkið á hlaupara og bitið hann í lærið.

Hlauparinn hlaut minniháttar áverka og verður MAST tilkynnt um atvikið, að því er kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

„Rústaði“ bifreiðinni

Á áttunda tímanum í gærkvöldi var ökumaður handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og annarra vímuefna. Ökumaðurinn hafði lent í umferðarslysi í hverfi 221 í Hafnarfirði og „rústað“ bifreið sinni með því að aka henni utan í gröfu. Hann fékk aðhlynningu á slysadeild og var síðan vistaður í fangageymslu.

Ökumaður var handtekinn á þriðja tímanum í nótt grunaður um akstur undir áhrifum vímuefna og án gildra ökuréttinda. Hann reyndi að stinga lögregluna af en hafði ekki erindi sem erfiði. Dregið var úr honum blóðsýni og var hann síðan látinn laus úr haldi.

mbl.is/Ari

Neitaði að blása í áfengismæli

Annar ökumaður var handtekinn um hálfáttaleytið í gærkvöldi grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og sviptur ökuréttindum. Dregið var úr honum blóðsýni og hann síðan vistaður í fangageymslu. Hann hafði valdið minniháttar umferðaróhappi og neitað að veita aðstoð við rannsókn málsins með því að blása í áfengismæli.

Um hálfsexleytið í gær var ökumaður handtekinn grunaður um akstur stolinnar bifreiðar undir áhrifum vímuefna og sviptur ökuréttindum. Dregið var úr honum blóðsýni og tekin af honum skýrsla vegna nytjastuldar og hann síðan látinn laus úr haldi.

Greiddi ekki fyrir farið

Á öðrum tímanum í nótt var óskað eftir aðstoð vegna fjársvika í hverfi 200 í Kópavogi. Þar hafði farþegi leigubifreiðar ekki greitt fyrir farið.

Ökumaður var handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum vímuefna og vörslu fíkniefna skömmu fyrir miðnætti. Dregið var úr honum blóðsýni og tekin af honum vettvangsskýrsla vegna fíkniefnabrotsins og hann síðan látinn laus úr haldi.

mbl.is