Juergen Boos hlaut Vigdísarverðlaunin

Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, veitir Juergen Boos, forstjóra Bókastefnunnar …
Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, veitir Juergen Boos, forstjóra Bókastefnunnar í Frankfurt, alþjóðlegu Vigdísarverðlaunin 2022. mbl.is/Arnþór Birkisson

Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, heiðraði í dag Juergen Boos, forstjóra Bókastefnunnar í Frankfurt, með alþjóðlegu Vigdísarverðlaunum 2022 við hátíðlega athöfn í Háskóla Íslands.

Vigdísarverðlaunin eru veitt árlega þeim einstaklingi sem brotið hefur blað með stöfum sínum í þágu tungumála, menningarheima og þýðingastarfs. Þetta er í þriðja skipti sem verðlaunin eru veitt en þau voru fyrst veitt árið 2020 í tilefni stórafmælis Vigdísar. Þá voru jafnframt liðin 40 ár frá sögulegu forsetakjöri hennar.

Vigdís Finnbogadóttir var að sjálfsögðu viðstödd við athöfnina.
Vigdís Finnbogadóttir var að sjálfsögðu viðstödd við athöfnina. mbl.is/Arnþór Birkisson

Juergen hlaut verðlaunin í ár

Juergen Boos hlaut Vigdísarverðlaunin fyrir störf sín við Bókastefnuna í Frankfurt en hún er stærsta og áhrifamesta bókastefna heims. Bókastefnan kynnir bókmenntir frá öllum heimshornum, einnig þær sem skrifaðar eru á tungumálum fámennra málsamfélaga. Árlega býður bókastefnan einu landssvæði að vera heiðursgestur en til að mynda voru bókmenntir frá Íslandi í kastljósinu árið 2011.

Juergen Boos varð forstjóri og stjórnarformaður Bókastefnunnar í Frankfurt árið 2005. Hann er jafnframt formaður LITPROM, félags sem kynnir með markvissum hætti afrískar, asískar og rómansk-amerískar bókmenntir, og starfandi formaður LitCam, nefndar sem hefur það að markmiði að efla læsi.

Fyrri handhafar Vigdísarverðlaunanna eru grænlenska ljóðskáldið og málvísindakonan Katti Frederiksen, og færeyski málvísindamaðurinn, kennarinn og útgefandinn Jonhard Mikkelsen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert