Fullyrðingar sem eiga ekki við rök að styðjast

Kristín Huld Haraldsdóttir.
Kristín Huld Haraldsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Allt að 25 til 30 prósent þeirra sem gangast undir skurðaðgerð vegna briskrabbameins eru taldir læknaðir fimm árum eftir aðgerð, en 10 til 15 prósent til viðbótar eru á lífi, þrátt fyrir endurkomu sjúkdómsins. Fullyrðingar um gagnsleysi skurðaðgerða við briskrabbameini eiga því ekki rétt á sér.

Þetta segja þrír krabbameinslæknar sem rituðu grein í Morgunblaðið í lok maí. Þar svöruðu læknarnir Birgi Guðjónssyni krabbameinslækni sem sagði í viðtali við Morgunblaðið um miðjan maí að ekki væri hægt að réttlæta skurðaðgerðir af þessu tagi. Þær væru kostnaðarsamar og skiluðu litlum sem engum árangri. Birgir vill leggja aðgerðirnar af og einblína á lyfja- og geislameðferð.

Kristín Huld Haraldsdóttir, kviðarholsskurðlæknir á Landspítalanum og sérfræðingur, meðal annars í aðgerðum á briskrabbameinum, er ein þeirra sem ritaði greinina.

Frá því í vor hefur hún ítrekað fengið athugasemdir og fyrirspurnir vegna ummæla Birgis og sér sig því knúna til svara þeim betur og gera grein fyrir þeim framförum sem orðið hafa við meðhöndlun þessa tiltekna krabbameins.

Kristín segir að mikilvægt sé að valda ekki óþarfa ótta hjá þeim viðkvæma hópi sem greinist með briskrabbamein. Hún telur að flestir þeir sem vinna með briskrabbamein séu sömu skoðunar og að sú skoðun að aðgerðir séu ekki réttlætanlegar, eigi ekki lengur við.

Hægt að lækna í ákveðnum tilfellum

Þrátt fyrir að um illvígt krabbamein sé að ræða hafi miklar framfarir hafi orðið í meðferð sjúkdómsins og batahorfur aukist á síðustu árum. Sé horft til baka voru aðeins um fjögur prósent sjúklinga sem gengust undir skurðagerð vegna briskrabbameins hér áður fyrr á lífi tíu árum eftir hana.

„Þetta er sjúkdómur sem er í ákveðnum tilfellum hægt að lækna og lengja líf töluvert og það fannst okkur mikilvægt að kæmi fram. Margir þekkja einstakling eða eiga ættingja með briskrabbamein og það er mikilvægt að þeir, ásamt sjúklingum viti að ekki sé verið að leggja árar í bát,“ segir Kristín í samtali við mbl.is. 

Á Íslandi greinast árlega um 40 einstaklingar með briskrabbamein og …
Á Íslandi greinast árlega um 40 einstaklingar með briskrabbamein og í árslok 2020 voru tæplega 70 einstaklingar á lífi með sjúkdóminn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég held að flestir séu á okkar skoðun, þeir sem eru að vinna með þetta, og að önnur sjónarmið séu að detta upp fyrir,“ bætir hún við.

40 greinast á ári hverju

Á Íslandi greinast árlega um 40 einstaklingar með briskrabbamein og í árslok 2020 voru tæplega 70 einstaklingar á lífi með sjúkdóminn. Sjúkdómurinn er þess eðlis að einkennin eru oft óljós og því greinist meirihluti sjúklinga þegar krabbameinið hefur náð að dreifa sér. Skurðaðgerð er því aðeins framkvæmanleg í 20 til 30 prósent tilfella.

„Þeir sem eru með staðbundið krabbamein sem vex ekki yfir á önnur líffæri eða æðar, það er í vissum tilfellum hægt að fjarlægja þau. Stundum er hægt að gefa krabbameinslyf fyrir aðgerð sem minnka krabbameinsæxlið, þannig það sé aðgengilegt fyrir skurðaðgerð.“

Kristín segir mjög marga ná sér alveg að fullu eftir slíka skurðaðgerð og geta lifað tiltölulega eðlilegu lífi í framhaldinu.

„Mjög margir ná sér alveg að fullu. Sumir eru þannig að þeir fara ekki hundrað prósent til baka og eru þannig að þeir þurfa kannski að borða minna í einu eða borða oftar til að ná í sig næringu, en mjög margir komast út í lífið og lifa nánast eðlilegu lífi eftir aðgerð,“ útskýrir Kristín.

„Þetta er sjúkdómur sem er í ákveðnum tilfellum hægt að …
„Þetta er sjúkdómur sem er í ákveðnum tilfellum hægt að lækna og lengja líf töluvert og það fannst okkur mikilvægt að kæmi fram,“ segir Kristín. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er oft miðað við að ef maður er án krabbameins í fimm ár eftir aðgerð sé maður læknaður. Fjöldi rannsókna og reynsla annarra styður það líka að þetta er raunin. Við erum að útskrifa fólk eftir fimm ár úr eftirliti og því finnst okkur fullyrðingar um að framkvæma ekki aðgerð eigi ekki við rök að styðjast.“

Alltaf gefin lyf ef sjúklingur þolir það

Aðspurð hvers vegna það séu þá uppi þessar ólíku skoðanir á skurðaðgerðum, segir Kristín þá sem eru á öndverðum meiði ekki vera að tala um sama hlutinn. Hér áður fyrr hafi ekki verið gefin krabbameinslyf eftir aðgerðir, líkt og nú er gert og hefur bætt lífslíkur. Nú séu alltaf gefin krabbameinslyf, ef sjúklingur þolir það, og það skiptir miklu máli þegar kemur að því að koma í veg fyrir endurkomu sjúkdómsins eftir aðgerð.

„Þetta var einu sinni þannig að það voru annað hvort gefin krabbameinslyf eða framkvæmd skurðaðgerð en í dag er þetta miklu meira þannig að þetta vinnur svolítið saman. Maður gefur stundum krabbameinslyfjameðferð bæði fyrir og eftir og stundum bara eftir. Þannig er reynt að minnka líkur á að krabbameinið komi til baka eftir aðgerð, sem er alltaf áhætta þegar maður greinist með krabbamein.“

Miklar framfarir orðið á síðustu 15 til 20 árum

Að sögn Kristínar hafa miklar framfarir orðið við meðferð briskrabbameins sem og annarra krabbameina á síðastliðnum 15 til 20 árum. Breytingarnar felast bæði í skurðtækni og krabbameinslyfjameðferð.

„Við eigum orðið miklu fleiri lyf, mismunandi lyf sem ráðast á æxli á mismunandi hátt, sem er þá hægt að beita. Við vitum að þar er þróunin gríðarleg með aukinni tækniþróun. Maður sér fram á að það að á næstu árum eigi það eftir að breytast enn frekar.

Auðvitað er það því miður enn svo, af því briskrabbamein er með frekar óljós einkenni, að það greinist ekki fyrr en skurðaðgerð kemur ekki til. Það er stór hópur, en þeir sem þola krabbameinslyfjameðferð þeir lifa lengur en fólk gerði áður, en það er þá ekki læknandi meðferð,“ segir Kristín.

Mestu máli skipti að fara vel yfir allar rannsóknir hjá hverjum og einum á samráðsfundi til að meta hvaða meðferð á best við.

„Það er gert á Landspítalanum í dag, á sama hátt og á þeim meðferðarstofnunum sem við viljum bera okkur saman við. Það á mikinn þátt í að meðferðarárangur okkar er á pari við það sem best gerist í heiminum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert