Leikskólanum Árborg verður lokað í ár

Ljósmynd/Colourbox

Vandræðin í leikskólamálum borgarinnar halda áfram. Núna stendur til að loka leikskólanum Árborg í að minnsta kosti eitt ár, vegna raka og endurbóta á leikskólanum og er búist við að lokunin verði í lok þessa mánaðar eða í byrjun nóvember.

Í bréfi sem sent var til foreldra síðasta þriðjudag segir að í sumar hafi verkfræðistofan Mannvit verið fengin til að gera úttekt á leikskólanum og þá hafi komið í ljós rakaskemmdir.

Börnin fá inni á Brákarborg

Börnunum verður ekki vísað út á gaddinn, því leikskólinn Brákarborg á Brákarsund 1 mun taka við þeim þennan tíma segir í bréfinu. Það verður þó talsvert lengra ferðalag að fara með börnin til og frá skóla heldur, þar sem leikskólinn Árborg er í Árbæjarhverfi en Brákarborg niðri við Sund. Leikskólastjóri Árborgar, Sigríður Valdimarsdóttir, biður foreldra um að reyna að sýna þessu skilning og standa saman í bréfinu sem hún sendi í vikunni.

Sigríður vildi ekki tjá sig um mál Árborgar þegar hringt var í hana en benti á Skóla- og frístundasvið borgarinnar. Þar kom fram að foreldrar eru boðaðir til fundar næsta mánudag eftir hádegi og þar verði fulltrúar borgarinnar, túlkar og sérfræðingar um rakaskemmdir til að svara foreldrum.

Ekkert grín að flytja heilan leikskóla

Hjá Skóla- og frístundasviði borgarinnar var mikill hamagangur í dag við að undirbúa fundinn og leysa málið. „Það er ekkert grín að koma heilum leikskóla fyrir annars staðar," sagði Hjördís Rut Sigurjónsdóttir sem sagði alla vera að leggjast á eitt að finna farsæla lausn á þessu erfiða máli.

mbl.is