Segja friðhelgi Þóru hafa verið vanvirta

Jón Baldvin Hannibalsson í réttarsal.
Jón Baldvin Hannibalsson í réttarsal. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nokkrir aðstandendur Þóru Hreinsdóttur, sem ritaði dagbókarfærslur um Jón Baldvin Hannibalsson, harma að „friðhelgi einkalífs hinnar látnu konu“ hafi verið rofin og vanvirt.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem mbl.is barst í kvöld. Undir hana rita þau Þorsteinn Eggertsson, fyrrverandi sambýlismaður Þóru á árunum 1975-1983, Soffía Þorsteinsdóttir, dóttir Þóru og Jóhanna Fjóla Ólafsdóttir, núverandi eiginkona Þorsteins.

Vísað er til umfjöllunar Stundarinnar, sem unnin var upp úr dagbókarfærslum Þóru.

Dóttir Þóru afhenti dagbók úr dánarbúi móður sinnar

Umfjöllun Stundarinnar byggðist á dagbókarfærslum Þóru frá árinu 1970 sem greindu frá um samskiptum hennar við Jón Baldvin sem var þá kennarinn hennar í Melaskóla.

Þóra var þá 15 ára gömul og lýsti því hvernig hann hefði farið með henni í bíltúra og skrifað bréf um það hve heitt hann þráði hana. Stundin fékk dagbókina og bréf Jóns Baldvins til hennar afhent frá dóttur Þóru, Valgerði Þorsteinsdóttur.

Í yfirlýsingu aðstandenda Þóru segir að greinin byggist á „túlkun blaðamannsins á meira en hálfrar aldar dagbókarfærslum Þóru Hreinsdóttur sem voru hennar einkamál“.

Yfirlýsing Ingibjargar tilefnislaus og sérlega meiðandi

Þá gera aðstandendur sérstaka athugasemd við það að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, hafi tjáð sig um málið opinberlega. Ingibjörg sagði í Facebook-færslu að Jón Baldvin hefði hagað sér eins og rándýr.

Þau Þorsteinn, Soffía og Jóhanna segja þessar athugasemdir Ingibjargar hafa verið tilefnislausar og sérlega meiðandi. 

Þá segja aðstandendur að af umfjölluninni megi draga þá ályktun að ætlunin hafi verið að hafa áhrif á væntanleg málaferli gegn Jóni Baldvini og segja Þóru þannig orðna vitni í sakamáli sex árum eftir andlát „án hennar vitundar og vilja“.

Gætt dagbókanna vel

Þau segja enn fremur að Þóra hafi gætt þessara dagbóka sérlega vel og neitað að afhenda þær til birtingar á meðan hún var á lífi. 

„Þau hjónin og Soffía dóttir hans og Þóru telja sig af þeirri ástæðu og reyndar ýmsum öðrum, vita með vissu, að Þóra hefði ekki viljað taka þátt í fjölmiðlaherferð af þessu tagi, sem meðal annars á nú að snúast um einkamál hennar.“

Í lok yfirlýsingar sinnar beina aðstandendur því til fjölmiðla og „svokallaðra álitsgjafa“ að virða einkalíf Þóru Hreinsdóttur og „láta ógert að leiða hana fram sem vitni í sakamáli, sem henni er óviðkomandi“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert