Guðmundur Árni sækist eftir varaformannsstólnum

Guðmundur Árni vill verða næsti varaformaður Samfylkingarinnar.
Guðmundur Árni vill verða næsti varaformaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Sigurður Bogi

Guðmund­ur Árni Stef­áns­son, odd­viti Sam­fylk­ing­ar­inn­ar í Hafn­ar­f­irði, sækist eftir því að verða varaformaður Samfylkingarinnar. Þetta staðfestir hann í samtali við mbl.is.

Spurður hvers vegna hann tilkynni um framboð sitt núna segir Guðmundur Árni:

„Vegna þess að ég hef fengið talsverða hvatningu og mikið af hringingum, og menn telja að það sé ekki slæm ímynd af forystu Samfylkingarinnar að hafa unga og kjarkaða konu í forystu og gamlan hund hokinn af reynslu henni við hlið.“

Vissi að Heiða myndi draga framboð sitt til baka

Mbl.is spurði Guðmund Árna í byrjun september hvort að hann hygðist bjóða sig fram. Þá sagðist hann ekki hafa áform um það en sagði þó að maður segði aldrei aldrei í pólitík.

Heiða Björg Hilm­is­dótt­ir, borg­ar­full­trúi Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, varaformaður flokksins og nýr formaður Sam­bands ís­lenskra sveit­ar­fé­laga, gaf út fyrr í dag að hún hygðist ekki sækjast eftir endurkjöri til varaformanns.

Guðmundur Árni segir að hann hafi vitað af því að Heiða myndi draga framboð sitt til baka. Spurður hvort þau hafi rætt saman um þetta segir hann: 

„Við höfum talað saman heilmikið um allt og ekki neitt. Ég studdi hana til forystu í Sambandi íslenskra sveitarfélaga, enda nýkjörinn bæjarfulltrúi, þannig að við höfum verið í miklu sambandi.“

„Ég vil nýta tækifærið og þakka henni og fráfarandi formanni Loga fyrir þeirra verk og góðu störf,“ bætir Guðmundur Árni við.

Kristrún og Guðmundur Árni ein í framboði

Landfundur Samfylkingarinnar verður haldinn helgina 28. til 29.október og verður þá kosið til forystu. Þar sem Heiða Björg hefur dregið framboð sitt til baka er Guðmundur Árni einn í framboði til varaformanns.

Þá er Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, einnig ein í framboði til formanns.

mbl.is

Bloggað um fréttina