Með böggum hildar yfir ráðabruggi grunuðu

Guðlaugi Þór Þórðarsyni varð felmt við er hann heyrði af …
Guðlaugi Þór Þórðarsyni varð felmt við er hann heyrði af meintu ráðabruggi grunuðu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er mjög óþægilegt, það verður bara að segjast. Ég fékk svo sem að vita þetta fyrir nokkrum vikum frá lögreglunni, að mitt nafn væri þarna á blaði,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, í samtali við mbl.is.

Umræðuefnið er nafn ráðherrans á lista manna, sem nú sitja í gæsluvarðhaldi, grunaðir um að hafa lagt á ráðin um hryðjuverk, yfir fólk er þeir hygðust ráða af dögum í aðgerðum sínum.

„Fyrsta hugsunin var hvernig maður ætti að útskýra þetta fyrir fjölskyldunni. Þá fer maður auðvitað að hugsa um að við búum í raun í góðu og öruggu þjóðfélagi hérna heima og þannig vill maður hafa það,“ segir ráðherra.

„Manni bregður mikið þegar svona lagað kemur upp, hvort sem það á við mann sjálfan eða aðra,“ heldur hann áfram, en eins og fram kom í umfjöllun Ríkisútvarpsins um málið í dag töldu grunuðu að Guðlaugur Þór væri enn utanríkisráðherra og hafi það hugsanlega verið kveikjan að því að þeir ræddu sín á milli að gera atlögu að honum.

„Maður veltir fyrir sér hver kveikjan að þessu sé hjá þessum mönnum, það veit ég auðvitað ekki, en þetta tengist hugsanlega því sem stjórnmálamenn segja og gera. Maður getur leitt líkum að því að það sem maður hefur staðið fyrir eigi þarna hlut að máli, frelsi einstaklingsins til orðs og athafna, en ég mun ekki breyta mínum áherslum.“

Eyland en þó ekki eyland

Telur Guðlaugur Þór að Íslendingar séu á leið inn í nýtt tímabil þar sem hryðjuverkaógn er hluti af hversdagslegum raunveruleika?

„Það er auðvitað þannig að þótt við séum eyland þá erum við ekki eyland, það sem getur gerst í nágrannalöndunum getur gerst hér, en ég vil ekki trúa því að við séum að fara inn í eitthvað annað tímabil. Það sem skiptir öllu máli er að við ræðum þessi mál, en það þurfum við að gera af yfirvegun. Við megum alls ekki láta ótta eða neikvæðar tilfinningar hafa áhrif þar og hvað sem gerist þurfum við alltaf að huga að öryggismálum,“ segir Guðlaugur en mbl.is ræddi einnig í dag við Bryndísi Haraldsdóttur, þingmann og formann allsherjar- og menntamálanefndar, um fund með fulltrúum ríkislögreglustjóra sem kynntu nefndinni nýjustu strauma á vettvangi skipulagðrar glæpastarfsemi.

Er sá hugsunarháttur að svona lagað gerist ekki á Íslandi orðinn úreltur að mati ráðherra?

„Við eigum alltaf að hafa vaðið fyrir neðan okkur og ekki taka óþarfa áhættu. Við viljum halda því þjóðfélagi sem við erum með núna og ég held að það sé alveg hægt. Við þurfum bara að nálgast þessi mál af mikilli yfirvegun með það markmið að varðveita það góða þjóðfélag sem við búum í,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert