Segjast ranglega bendlaðir við kynferðisbrot

Nöfn sex nemenda voru rituð á spegilinn og myndum deilt …
Nöfn sex nemenda voru rituð á spegilinn og myndum deilt á samfélagsmiðla. Ljósmynd/Aðsend

Menntaskólanum við Hamrahlíð hafa borist „nokkrar kvartanir“ frá einstaklingum sem telja sig hafa verið ranglega bendlaðir við kynferðisbrot fyrir um tveimur vikum þegar nöfn þeirra voru rituð á spegil í skólanum og mynd af því deilt á samfélagsmiðlum.

Þetta segir í bréfi sem rektorinn sendi til allra nemanda skólans í kvöld. Þar segir að þrjú mál séu sem stendur í ferli „á grundvelli tilkynninga um atvik utan skólans“. Sex nöfn voru rituð á spegilinn.

Mikla athygli vakti í upphafi mánaðarins þegar nemendur í MH og öðrum skólum kröfðust úrbóta varðandi hvernig tekið væri á kynferðislegu ofbeldi og -áreitni meðal nemenda.

Á annað þúsund mennskælinga mótmæltu í upphafi mánaðar meintri þöggunarmenningu …
Á annað þúsund mennskælinga mótmæltu í upphafi mánaðar meintri þöggunarmenningu skólastjórnenda. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Teymi taki málin til meðferðar

„Nokkrar kvartanir um einelti hafa verið sendar skólanum frá einstaklingum á þeim grundvelli að nöfn þeirra hafi að ósekju verið rituð á speglana. Þau mál fara í ferli og hefur skólinn óskað eftir því að utanaðkomandi teymi taki þau mál til meðferðar,“ segir í bréfinu.

Því næst er áréttað að skólinn muni „sinna skyldu sinni til að hlúa að öllum nemendum og hafi í kjölfarð atburða síðustu vikna hafið vinnu við að uppfæra áætlanir um viðbrögð við einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi.

Skólinn fagni þeim umbótum sem séu að eiga sér stað eftir að nemendur kröfðust þess.

Steinn Jóhannsson, rektor MH, og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og …
Steinn Jóhannsson, rektor MH, og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, mættu á mótmælin þann 6. október og hétu báðir úrbótum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bréfið í heild sinni:

Í kjölfar þess að nöfn nokkurra nemenda Menntaskólans við Hamrahlíð voru rituð á spegla á salernum skólans hóf skólinn upplýsingaöflun í samræmi við viðbragðsáætlun vegna kynferðislegrar áreitni/kynferðislegs ofbeldis. Þrjú mál eru sem stendur í ferli á grundvelli tilkynninga um atvik utan skólans.

Nokkrar kvartanir um einelti hafa verið sendar skólanum frá einstaklingum á þeim grundvelli að nöfn þeirra hafi að ósekju verið rituð á speglana. Þau mál fara í ferli og hefur skólinn óskað eftir því að utanaðkomandi teymi taki þau mál til meðferðar. Menntaskólinn við Hamrahlíð mun eftir sem áður sinna skyldu sinni til að hlúa að öllum nemendum. Í kjölfar atburða síðustu vikna hefur skólinn þegar hafið vinnu við að uppfæra áætlanir um viðbrögð við einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi. Þá fagnar skólinn því að stjórnvöld og hagsmunasamtök nemenda hafi sett af stað vinnu sem miðar að því að bæta úrvinnslu slíkra mála.

mbl.is