Móttökustöð Sorpu ekki ofarlega á dagskrá bæjaryfirvalda

Álag mun aukast á aðrar móttökustöðvar Sorpu ef stöðinni á …
Álag mun aukast á aðrar móttökustöðvar Sorpu ef stöðinni á Dalvegi verður ekki fundinn nýr staður. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég býst við að ef við munum ekki finna móttökustöðinni á Dalvegi í Kópavogi nýjan stað muni það auka álag á hinar stöðvarnar,“ segir Jón Viggó Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sorpu.

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, segir að vera móttökustöðvarinnar hafi skapað mikla umferð með tilheyrandi öngþveiti og slysahættu. Þá liggi ekki fyrir hvort móttökustöð Sorpu verði í Kópavogi eftir 2024.

Jón Viggó segist lengi hafa talað um það við Kópavogsbæ að finna nýjan stað fyrir Sorpu en að það hafi ekki verið ofarlega á dagskrá bæjaryfirvalda. Staðsetning móttökustöðva Sorpu sé í höndum sveitarfélaganna og þeirra forgangsröðun.

„Ég finn það mjög sterkt að íbúar vilji hafa stöð í hæfilegri fjarlægð. Við vinnum eftir því hjá Sorpu að það sé um 10-15 mínútna akstur á næstu endurvinnslustöð þar sem við teljum þjónustuna afar mikilvæga og að þjónustan þurfi að vera nálægt íbúum,“ segir Jón Viggó.

Staðan á samningamálum í öðrum sveitarfélögum góð

Jón Viggó segir stöðuna í öðrum sveitarfélögum vera góð og að samningar standi vel. Móttökustöð Sorpu við Sævarhöfða mun loka og í staðinn mun ný stöð opna við Lambhagaveg um mitt ár 2024 sem mætir þeim kröfum sem nútímasamfélag gerir um endurvinnslu.

„Við erum auk þess að endurnýja samninga í Mosfellsbæ en sveitarfélögin telja þetta vera mikilvæga þjónustu. Samstarfið um Sorpu snýst um að þessar stöðvar geti verið hvar sem er innan höfuðborgarsvæðisins og nýtist þá öllum. Það er styrkur samstarfs sveitafélaganna að geta staðsett Sorpu á besta stað hvort sem það er í Garðabæ, Kópavogi eða Reykjavík. Það skiptir ekki máli hvar stöðin er þar sem greiðslur fyrir þetta kerfi varða fjölda íbúa í hverju sveitarfélagi fyrir sig. Þetta er ekki staðbundinn kostnaður fyrir til dæmis Kópavog að hafa Sorpu stöð hjá sér,“ segir Jón Viggó.

mbl.is