Um 50 skjálftar frá miðnætti

Herðubreið myndaðist undir jökli fyrir um tíu þúsund árum síðan.
Herðubreið myndaðist undir jökli fyrir um tíu þúsund árum síðan. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Um 50 jarðskjálftar hafa mælst frá miðnætti í grennd við Herðubreið og samkvæmt óyfirförnum niðurstöðum Veðurstofu Íslands var sá stærsti 2,5 að stærð.

Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að virknin hafi róast nokkuð síðustu daga. Á laugardaginn hafi mælst 280 skjálftar og á sunnudaginn hafi þeim fækkað niður í 180. Sá stærsti var 2,9 að stærð. Þá sýni gps-gögn frá svæðinu engin merki um gosóróa.

„Það bendir allt til að þetta sé hefðbundin skjálftavirkni að svo stöddu,“ segir Lovísa.

Lognast aftur út

Þá hafa 12 skjálftar mælst úti fyrir Norðurlandi við Grímsey frá miðnætti en alls mældust 30 skjálftar þar í gær. Skjálftahrina hófst þar snemma í september en undir lok mánaðarins aflýsti ríkislögreglustjóri óvissustigi vegna hennar þegar dregið hafði verulega úr virkninni.

Hrinan hefur þó verið að koma til baka í hviðum og í síðustu viku mældist þar skjálfti af stærðinni 4.

„Það er alls ekki jafnmikil virkni og var þarna fyrir nokkrum dögum. Hún virðist vera að lognast út aftur,“ sagði Lovísa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert