Tryggja að ekki verði ofgnótt af starfsfólki

Einar Þorsteinsson, forseti borgarstjórnar, á fundinum í dag.
Einar Þorsteinsson, forseti borgarstjórnar, á fundinum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon
„Við höfum ákveðið að fara í mjög metnaðarfullar hagræðinga aðgerðir í ljósi þess að hallarekstur borgarinnar hefur farið úr 3,8 milljörðum á síðasta ári í 15,3 milljarða,“ segir Einar Þorsteinsson, forseti borgarstjórnar, um fjárhagsáætlun og stefnu Reykjavíkurborgar sem rædd var á fundi borgarstjórnar í dag og í kvöld. 

„Það er mjög mikilvægt að við förum í það núna, strax í upphafi kjörtímabils, að taka í hornin á rekstrinum. Við innleiðum ráðningarreglur vegna þess að við sjáum það að útgjöld borgarinnar í launum sem hlutfall af tekjum er orðið of hátt,“ segir hann. 

Einar segir að tryggja þurfi að ekki sé ofgnótt af starfsfólki þó að grunnþjónusta þurfi að vera vel mönnuð.

Ekki ráðningarstopp

„Þessar ráðningarreglur ganga út á það að rýna í hverja starfsstöð og sjá hvort að mönnun sé í takt við þarfir. Eftir atvikum svo, þegar störf losna, að rýna vel hvort þurfi að endurráða í þau.“

Eru þessar ráðningarreglur eitthvað frábrugðnar ráðningarbanni?

„Já, vegna þess að það er ekki ráðningarstopp hjá leikskólum, í frístund eða í nauðsynlegri velferðarþjónustu sem við verðum að sinna. Þar er áfram verið að sækjast eftir fólki.“

Spurður hvort að reglurnar séu þá ekki í takt við þær aðgerðir sem Sjálfstæðisflokkurinn kynnti í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga, segir Einar þær eflaust svipaðar, enda hafi hann sóst eftir góðu samstarfi við minnihlutann og lagt áherslu á að óska eftir hagræðingartillögum frá flokkum í minnihluta.

„Ég lagði áherslu á það í ræðu minni í dag að minnihlutaflokkarnir kæmu með tillögur til hagræðingar – eitthvað annað en bara útgjaldatillögur eða tillögur um skerðingu á tekjustofnum.“

Hann segir verkefnið fram undan alvarlegt enda hallinn á borgarsjóði mikill. „Við erum ekki með sjálfbæran rekstur eins og staðan er í dag og á því þarf að taka.“

Nýta starfsmannaveltuna

Þetta er ákveðin stefnubreyting frá fyrri vinstri meirihlutum í borginni. Er þessi hagræðing eitthvað sem þú fórst fram á?

„Ég hef lagt mikla áherslu á þetta. Ég verð þó að viðurkenna að þegar ég bauð mig fram þá bjóst ég ekki við því að þetta yrði eitt af mínum fyrstu verkum hér – að fara í svona hagræðingaraðgerðir. Staðan var ekki svona þá. Ég hefði haft meiri ánægju af því að leggja til sókn í ýmsum málaflokkum en að fara með hagræðingarkröfu inn á svið borgarinnar. En það er samstaða í meirihlutanum um þessar aðgerðir,“ segir Einar og bætir við að enn fremur sé mikilvægt að hlustað verði á tillögur minnihlutans. 

Gæti komið til uppsagna eða verður einungis starfsmannavelta notuð?

Það mun líklega fara eftir sviðum. Almenna reglan er að nýta starfsmannaveltuna til að vega og meta hvert starf sem losnar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina