Hlutirnir verði að vera í verki, ekki bara orði

Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar.
Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, gagnrýndi á Alþingi í dag stjórnmálaflokk sem hefði á landsfundi sínum um helgina reynt að fullvissa fólk um að flóttamannastefna ríkisstjórnarinnar væri mannúðleg þrátt fyrir að flokkurinn væri sá sem stæði einna helst fyrir því að flóttamenn væru sendir á götuna í Grikklandi.

„Staðan er sú að það er ómannúðlegt að senda fólk á götuna í Grikklandi, ekki síst ef það er í hjólastól. Þess vegna er sérkennilegt að við skulum gera það og það er sérkennilegt að stjórnamálaflokkurinn sem stendur einna helst fyrir því skuli á landsfundi sínum um helgina hafa samþykkt það og reynt að fullvissa fólk um það að stefnan sé eftir sem áður mannúðleg,“ sagði Sigmar en ætla má að hann hafi verið að tala um Sjálfstæðisflokkinn.

96 flóttamenn til Grikklands á fyrri hluta ársins

Sigmar benti þinginu á grein Kjarnans frá því í morgun um að Þýskaland sendi nánast ekki nokkurn flóttamann aftur til Grikklands.

„Sagan er þarna rakin en dómstólar í Þýskalandi hafa komist að þeirri niðurstöðu að það sé ómannúðlegt að gera það og þar er vísað til dóms Evrópudómsstólsins frá árinu 2019,“ segir Sigmar.

„Ríki í Evrópu hafa sent 96 hælisleitendur til baka til Grikklands á fyrstu sex mánuðum ársins. Við Íslendingar ætluðum að senda 30 á dögunum með einni flugvél í atburði sem hæstvirtur dómsmálaráðherra talaði um að væri næstum því vikulegt brauð hér á Íslandi.

„Það er ekki nóg að hlutirnir séu í orði, þeir verða líka að vera það í verki.“

„Þess vegna hafa þrír þingflokkar, Viðreisn, Píratar og Samfylking, lagt fram þingsályktunartillögu í annað sinn þar sem fram kemur vilji til þess að stöðva brottvísanir og endursendingar flóttafólks til Grikklands, Ítalíu og Ungverjalands,“ sagði Sigmar á Alþingi í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert