Vilja stöðva brottvísanir til Grikklands

Sigmar Guðmundsson.
Sigmar Guðmundsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, hefur ásamt sextán öðrum stjórnarandstöðuþingmönnum lagt fram tillögu til þingsályktunar um að stöðva brottvísanir og endursendingar flóttafólks til Grikklands, Ítalíu og Ungverjalands. 

Tillagan kveður á um að fela dómsmálaráðherra að tryggja að stofnanir sem undir ráðuneytið heyra sendi umsækjendur um alþjóðlega vernd ekki til Grikklands, Ítalíu eða Ungverjalands, óháð því hvort viðkomandi hafi þegar hlotið þar alþjóðlega vernd eða ekki.

Í greinagerð tillögunnar segir að markmið hennar sé að tryggja að stjórnvöld sendi umsækjendur um alþjóðlega vernd ekki á svæði þar sem aðstæður eru óviðunandi og hætt er við að fólk verði fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð.

„Íslenska ríkið hefur áður metið aðstæður tiltekinna svæða til móttöku flóttafólks óviðunandi. Má þar nefna að árið 2010 hætti Útlendingastofnun að senda flóttafólk til Grikklands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar vegna þess að þarlend stjórnvöld gátu ekki staðið við alþjóðlegar skuldbindingar um aðbúnað flóttafólks. Sambærileg ákvörðun var tekin varðandi Ungverjaland árið 2015,“ segir í greinagerð. 

Þrátt fyrir að fallið hefur verið frá því að senda fólk aftur til umræddra landa á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, er fólk enn sent úr landi hafi það hlotið alþjóðlega vernd. 

„Aðstæður fólks sem hefur hlotið alþjóðlega vernd eru þó vart skárri en þeirra sem eru með umsókn í meðferð,“ segir í greinagerðinni.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert