Farið fram á tvær vikur í viðbót í hryðjuverkamáli

Skotvopn sem sýnd voru á blaðamannafundi vegna hryðjuverkamálsins í september.
Skotvopn sem sýnd voru á blaðamannafundi vegna hryðjuverkamálsins í september. mbl.is/Hallur Már

Embætti héraðssaksóknara mun á morgun fara fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir tveimur mönnum sem grunaðir eru um að hafa skipulagt hryðjuverk hér á landi. Þetta staðfestir Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá héraðssaksóknara, í samtali við mbl.is.

Farið verður fram á framlengingu varðhalds í tvær viku, en á morgun munu mennirnir hafa setið í varðhaldi í samtals 9 vikur. Fái ákæruvaldið beiðnina núna samþykkta af dómstól verður heildarlengdin því komin í 11 vikur. Að hámarki er hægt að fá gæsluvarðhaldsúrskurði í 12 vikur án þess að gefa út ákæru.

Segir röksemdir ákæruvaldsins síðast nú fallnar

Sveinn Andri Sveinsson, verjandi annars mannanna, segir í samtali við mbl.is að hann muni mótmæla þessari framlagningu ákæruvaldsins. Vísar hann til þess að við síðustu framlengingu fyrir tveimur vikum hafi ákæruvaldið rökstutt beiðni sína um framlengingu með því að rannsókn málsins yrði lokið innan tveggja vikna. Sveinn Andri segir að nú sé ljóst að það hafi ekki tekist og þá eigi að reyna að framlengja tímann.

Sveinn Andri Sveinsson, verjandi annars mannanna.
Sveinn Andri Sveinsson, verjandi annars mannanna. Ljósmynd/Aðsend

Sveinn Andri vísar jafnframt til stöðunnar sem upp er komin í fangelsum landsins, en undanfarið hefur verið greint frá því að vegna árásarinnar á Bankastræti Club í síðustu viku hafi gæsluvarðhaldsfangar aldrei verið fleiri, en þeir voru samtals 60 í fyrradag, en eru að jafnaði 20. Sveinn Andri spyr hvort þetta sé ekki tækifærið til að létta aðeins á, en þegar síðasti varðhaldsúrskurður var kveðinn upp lagði hann fram mat geðlæknis sem Sveinn Andri sagði hafa metið að mennirnir væru ekki hættulegir.

„Rannsóknin er á lokametrunum“

Mennirnir voru fyrstu vikurnar í einangrun, en hafa að undanförnu verið í lausagæslu í fangelsi. Karl Ingi staðfestir að ekki verði farið fram á einangrun.

„Rannsóknin er á lokametrunum,“ segir hann um stöðu rannsóknar málsins. Segir hann að stefnt sé að því að klára rannsókn og ákærumeðferð fyrir 12 vikna markið.

Héraðssaksóknari mun fara fram á áframhaldandi varðhald í hryðjuverkamálinu.
Héraðssaksóknari mun fara fram á áframhaldandi varðhald í hryðjuverkamálinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hann staðfestir að enn séu mennirnir tveir með stöðu sakbornings í tengslum við skipulag hryðjuverka, en að hann geti ekki staðfest með töluna sem tengist skoðun á vopnalagabroti að svo stöddu. Inn í þá rannsókn blandaðist meðal annars faðir ríkislögreglustjóra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert