Seðlabankinn hljóti að taka ábyrgð á afleiðingum

Ragnar Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/Kristinn Magnússon

Seðlabankinn þarf að taka ábyrgð á þeim afleiðingum sem stýrivaxtahækkun upp á 0,25 prósentustig kann að hafa á kjaraviðræður.

Þetta segir Ragnar Ingólfsson formaður VR, sem jafnframt sakar seðlabankastjóra um að spila pólitískan leik með hækkuninni. 

„Seðlabankinn hlýtur þá að taka ábyrgð á þeim afleiðingum sem þetta kann að hafa á vinnumarkaðinn og fólkið í landinu. Ef það er tilbúið að rísa upp gegn þessu dekri við fjármálakerfið og fjármagnseigendur að keyra hér upp vexti úr öllu valdi, alltaf með nýjum og nýjum afsökunum.“

„Var orðinn vongóður“

„Ég var orðinn nokkuð vongóður um að við kæmumst áfram með viðræðurnar, undir þeim formerkjum að ná hér niður vöxtum.

Seðlabankinn ruddi í raun allri þeirri vinnu út af borðinu í morgun. Það er mjög sorglegt. Ég er mjög sorgmæddur yfir því,“ segir Ragnar.

Upplýsa ekki um næstu skref fyrr en á morgun

Hvernig er tónninn í þínu baklandi, stendur til að slíta viðræðunum?

„Við erum búin að funda í baklandinu og það er mikil samheldni í okkar hópi. Ég ætla ekki að upplýsa um næstu skref. Við munum upplýsa Samtök atvinnulífsins um það á morgun.“ Boðað hefur verið til fundar hjá ríkissáttasemjara klukkan tíu í fyrramálið.

„Skilaboðin hjá Seðlabankanum eru þau að það er tilgangslaust fyrir okkur að reyna að semja í átt að stöðugleika sem verið er að kalla eftir, þegar enginn annar er tilbúinn að taka þátt í því með okkur.  Þetta eru sterk skilaboð inn í þá vinnu sem við höfum verið að vinna,“ segir Ragnar.

Viðræðurnar halda áfram á morgun.
Viðræðurnar halda áfram á morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert