Forseti gerði athugasemd við myndskreytingar Jakobs

Jakob Frí­mann Magnús­son, þingmaður Flokk fólksins, með mynd af svokölluðum …
Jakob Frí­mann Magnús­son, þingmaður Flokk fólksins, með mynd af svokölluðum „þjóðarsauð“. Skjáskot

„Myndskreytingar eru ekki heimilar í þeim þingsköpum sem við förum eftir,“ sagði Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, um mynd sem Jakob Frí­mann Magnús­son, þingmaður Flokk fólksins, var með í ræðustól á þinginu í dag. 

Jakob Frímann tók fram mynd af svokölluðum „þjóðarsauð“ er hann var í ræðustól og talaði um þjóðarauð Íslendinga. 

„Sauðurinn stendur á fjórum meginstoðum. Gulum, rauðum, grænum og bláum. Í stað gullfótar sjáum við gulfót hugverka og skapandi greina, grænfót grænnar orku og auðlindar jarðar, bláfót sjávarútvegsins og rauðfót – fót ferðaþjónustunnar og fleiri þátta,“ sagði hann er hann hélt á myndinni og sýndi þingmönnum. 

Er Birgir gerði athugasemd við myndskreytingu Jakobs Frímanns sagði hann að það ætti að setja upp skjá í þingsal. 

„Háttvirtur þingmaður getur með litríku orðalagi komið skilaboðum sínum vel á framfæri,“ sagði Birgir og uppskar mikinn hlátur í þingsal. 

mbl.is