Löggæsla byggist ekki á von

Ásgeir Þór Ásgeirsson aðstoðarlögreglustjóri beindi þeim tilmælum til fólks, að …
Ásgeir Þór Ásgeirsson aðstoðarlögreglustjóri beindi þeim tilmælum til fólks, að sleppa því að draga átök sín í miðbæinn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ásgeir Þór Ásgeirsson aðstoðarlögreglustjóri sagði í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun að skilaboð úr mörgum áttum um að von væri á miklum óeirðum í miðbænum um helgina, í einu tilfelli rætt um þrjú til fimm hundruð vopnaða menn á rútum, væru líkast til hugmynd einhverra um kímnigáfu.

„En við ætlum að passa upp á borgina okkar,“ sagði Ásgeir og svaraði spurningu, um hvort lögregla teldi líklegt að einhver fjöldi kæmi niður í bæ og léti til skarar skríða, með því að lögregla vonaði að svo yrði ekki. „En löggæsla byggist ekki á von, við verðum að vera tilbúin þegar við segjumst ætla að vera tilbúin og við verðum tilbúin í miðbænum um helgina,“ sagði Ásgeir enn fremur.

Vilji til að þétta kerfi öryggismyndavéla

Þá kom fram í máli Ásgeirs að öryggismyndavélar væru góðra gjalda verðar og nýttust við lausn fjölda mála. Umhverfið breyttist þó, tré hækkuðu og framkvæmdir hefðu áhrif á skyggni vélanna. Stæði vilji lögreglu til þess að þétta og bæta myndavélakerfið og væri það nú rætt við borgaryfirvöld.

Vildi Ásgeir ekki tjá sig í neinum smáatriðum um aukinn viðbúnað lögreglu, utan að hún yrði fjölmennari og búin fleiri tækjum, „[...] og við verðum með lögreglumenn sem eru tilbúnir að takast á við erfið verkefni,“ sagði hann þó.

Beindi aðstoðarlögreglustjóri að lokum þeim tilmælum til þeirra sem staðið hefðu í átökum undanfarið, að þeir hinir sömu væru ekki að draga þau átök í miðbæinn. „Ég held að það sé eitthvað sem við hljótum að stefna að öll í sameiningu,“ sagði hann.

mbl.is