„Þetta eru bara áfallatímar“

Kjartan Ragnarsson, regluvörður Myntkaupa er viðmælandi í fyrsta þætti Hvítþvotts.
Kjartan Ragnarsson, regluvörður Myntkaupa er viðmælandi í fyrsta þætti Hvítþvotts. Ljósmynd/Aðsend

Líkja má núverandi ástandi í heimi rafmynta í kjölfar gjaldþrots rafmyntakauphallarinnar FTX við hrun fjármálamarkaða árið 2008. Flestar þeirra 20.000 rafmynta sem eru til munu eiga erfitt með að lifa áfallið af. Þetta segir Kjartan Ragnars, regluvörður Myntkaupa, í fyrsta þætti hlaðvarpsins Hvítþvottar.

Í byrjun nóvember bárust fréttir af því að innistæður viðskiptavina FTX hefðu verið lánaðar í leyfisleysi til systurfélags kauphallarinnar. Í kjölfarið gerðu viðskiptavinir FTX áhlaup á kauphöllina og freistuðu þess að taka út innistæður sínar. Þetta reyndist kauphöllinni ofviða og fyrir tveimur vikum varð hún gjaldþrota.

„Þetta eru bara áfallatímar í heimi rafmynta,“ segir Kjartan.

Kjartan segir útlit fyrir að FTX hafi verið svikamylla og nefnir orð skiptastjóra FTX, Johns Rays, því til stuðnings en Ray segist aldrei hafa séð viðlíka bresti í stjórnun fyrirtækis. Fullyrðing skiptastjórans hefur vakið þó nokkra athygli sökum þess að hann starfaði einnig sem skiptastjóri olíurisans Enron í Bandaríkjunum fyrir um tuttugu árum. Gjaldþrot þess er gjarnan nefnt eitt stærsta hneyksli í bandarískri fjármálasögu.

„Ég hef því miður einhverja tilfinningu fyrir því að við eigum eftir að fá fleiri skelli,“ segir Kjartan. „Það eiga einhverjir stórir aðilar eftir að falla í viðbót.“

Sigurður Páll Guttormsson, þáttastjórnandi Hvítþvotts.
Sigurður Páll Guttormsson, þáttastjórnandi Hvítþvotts. Ljósmynd/Aðsend

Stórt skref aftur á bak

Kjartan telur að fall FTX muni fresta því að stofnanir og lífeyrissjóðir fjárfesti í rafmyntum og að líklegt sé að bjarnarmarkaður, þ.e. lækkunarfasi, muni vara á rafmyntamarkaði út næsta ár .„Þetta er stórt skref aftur á bak,“ segir Kjartan.

Hvað varðar framtíð rafmynta telur hann engu að síður að verðmætasta og þekktasta rafmyntin, Bitcoin, hafi staðið af sér meiri hremmingar heldur en fall FTX og muni einnig standa það af sér.

„Menn eru ýmist alltof svartsýnir eða alltof bjartsýnir,“ segir Kjartan. „Vonandi eru menn alltof svartsýnir núna.“

Hlaðvarpið Hvítþvottur fjallar um peningaþvætti frá ólíkum sjónarhornum. Í þessum fyrsta þætti hlaðvarpsins ræðir Kjartan einnig við þáttastjórnandann, Sigurð Pál Guttormsson, um hvaða áhættur eru til staðar í tengslum við peningaþvætti og rafmyntir, hvernig peningaþvætti fer fram með rafmyntum hér á landi og hvers vegna hann telur að rafmyntir séu ekki áhættusamari en aðrir greiðslumiðlar í því samhengi


Þátt­ur­inn er kom­inn inn á all­ar helstu hlaðvarps­veit­ur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert