Samþykkja að skoða farþegaferju í Esjuhlíðum

Fyrirtækið Esjuferðir ehf. hefur lýst yfir áhuga á að reisa …
Fyrirtækið Esjuferðir ehf. hefur lýst yfir áhuga á að reisa og reka farþegaferju í Esjuhlíðum. mbl.is/Eggert

Borgarráð samþykkti í dag að skoða tillögu borgarstjóra varðandi farþegaferju í Esjuhlíðum.

Fyrirtækið Esjuferðir ehf. hefur lýst yfir áhuga á að reisa og reka farþegaferju í Esjuhlíðum en Dagur B. Eggertsson borgarstjóri lagði bréf fyrirtækisins frá 10. október fyrir borgarráð. 

Allir fulltrúar meirihlutans kusu með hugmyndinni. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sátu hjá við afgreiðslu málsins. 

Í bókun borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar segir að borgarráð samþykki þar með að kanna forsendur verkefnisins, að umhverfis- og skipulagssvið skoði skipulagsþáttinn og eignaskrifstofan kanni afstöðu ríkisins sem landeiganda.

Verði niðurstaða þeirra athugana að halda áfram með verkefnið verður auglýst eftir áhugasömum aðilum sem myndu þá ráðast í gerð umhverfismats, hönnunar, fjármögnunar og reksturs. Endanleg ákvörðun um það ræðst hins vegar af niðurstöðum skipulagsvinnu og þess umsagnar- og samráðsferlis sem fram færi samhliða.“

Skoða aðra staði

Í bókun borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins var bent á að mikilvægt væri að vandað yrði til verka við alla hönnun, „þess sé gætt að ferjan falli vel að umhverfi og náttúru og þess gætt að neikvæð umhverfisáhrif og rask verði sem minnst“.

Áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna sagði í sinni bókun að skoða yrði hvort aðrir staðir í nágrenni Reykjavíkur kunni að vera heppilegri en Esjan fyrir kláf. Þá ber að athuga að framkvæmdin á eftir að hafa varanleg sjónræn áhrif á ásýnd Esjunnar.“

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert