„Vildum ekki fara í flatan niðurskurð“

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík. mbl.is/Ágúst Ólíver

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í borgarstjórn, segir að meirihlutinn hafi ekki viljað fara í flatan niðurskurð til að mæta hallarekstri borgarinnar. 

„Við erum að hlífa grunnþjónustunni og vildum ekki hækka álögur um fram þau áhrif sem verðbólgan hefur haft. Auðvitað eru ákveðnar breytingar þarna sem fela í sér minni háttar þjónustuskerðingu en eitthvað sem ég held að við getum öll búið ágætlega við,“ segir Þórdís Lóa en Viðreisn er í meirihlutasamstarfinu í borgarstjórn.

Hún segir að full alvara hafi legið að baki hugmyndum um að hagræða verulega í rekstrinum.  

„Við fórum af stað með þá hugmynd að fara í verkefnamiðaða hagræðingu í stað þess að fara í enn frekari flatan niðurskurð sem við vildum ekki. Við vildum hlífa grunnþjónustunni okkar. Sviðsstjórar og embættisfólk fengu það verkefni að draga fram tækifæri sem þau sæju og okkar var full alvara með að við þyrftum að ná alla vega milljarði í hagræðingu á ársgrundvelli. Nokkrar aðgerðir í tillögunum eru eins skiptis en hugmyndin er að flestar þeirra séu varanleg hagræðing,“ segir Þórdís Lóa. 

„Frá því Viðreisn kom inn í borgarstjórn árið 2018 höfum við verið með 1% hagræðingaraðgerðir í rekstrinum. Svo er einnig núna en auk þess erum við að fara í þessa verkefnamiðuðu hagræðingu upp á rúman milljarð. Þegar við fórum að vinna þetta og fengum tillögur frá sviðunum þá komu ýmis önnur tækifæri í ljós. Í þessum 92 tillögum frá meirihlutanum má finna frábærar hugmyndir og mögulegar hagræðingartillögur til framtíðar. Þetta er stórt og mikið átak til að minnka þann þrýsting sem verið hefur á rekstrinum. Þarna má finna ýmsar innri tillögur sem snúa að sparnaði í borgarkerfinu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina