Hagræðingartillögur meirihlutans í borginni kynntar

Á borgarráðsfundi í dag lagði meirihluti borgarstjórnar fram breytingar- og …
Á borgarráðsfundi í dag lagði meirihluti borgarstjórnar fram breytingar- og hagræðingartillögur við rekstur borgarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Á fundi borgarráðs í dag lagði Samfylkingin fram breytingar- og hagræðingartillögur meirihlutans við frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2023 vegna aðgerðaáætlunar um umbætur og hagræðingu. 

Breytingarnar ná yfir 92 atriði og í kynningu tillagnanna segir að breytingarnar endurspegli trausta fjármálastjórn borgarinnar og séu viðbrögð við áhrifum kórónuveirufaraldursins og tengist því að standa sérstaklega vörð um framlínuþjónustu og viðkvæma hópa.

Á sama tíma þurfi að sýna ráðdeild og minnka framlög í stórum málaflokkum þar sem lagaskyldur eru langt umfram þau framlög sem borginni séu tryggð.

Rafhleðslustöðvar

Ein breyting er t.d. á styrkveitingum vegna uppsetningar á rafhleðslustöðvum við fjölbýlishús sem lækka um 20 milljónir.

Samstarfssamningur Orkuveitu Reykjavíkur og Reykjavíkurborgarrennur út á árinu og OR hefur ákveðið að framlengja hann ekki, því verkefnið hafi verið hugsað semkynning á möguleikum uppsetningu rafhleðslustöðva og uppbyggingu þeirrar þekkingar á verktakamarkaði sem getur nú tekið við.

Lægri fjárhæð til sjálfstæðra leikskóla

„Lagt er til að fjárheimildir skóla- og frístundasviðs lækki um 258.486 þ.kr. vegna færri barna í sjálfstætt starfandi leikskólum en áætlað hefur verið. Gert hafði verið ráð fyrir 1.290 börnum en þau eru hins vegar 1.144,“ segir í tillögunum.

„Breytingin felst að hluta til í því að hlutfallslega eru fleiri börn frá nágrannasveitarfélögunum í viðkomandi skólum en spár gerðu ráð fyrir og rekstrarleyfi hafa ekki verið fullnýtt.“

Næturstrætó

Síðan stendur til að endurvekja næturstrætó sem djammarar borgarinnar verða eflaust mjög ánægðir með, þrátt fyrir að verkefnið muni væntanlega verið rekið með halla. Reykjavíkurborg myndi greiða fyrir þjónustuna til Strætó.

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins.
Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins. Ljósmynd/Aðsend

Vilja sjá aðra forgangsröðun

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins, Kolbrún Baldursdóttir, leggur fram svohljóðandi bókun vegna tillagnanna og kallaði eftir frekari rökstuðningi og vill sjá aðra forgangsröðun.

Sem dæmi var tekið að nær væri að draga úr fjárheimildum til þjónustu- og nýsköpunarsviðs þar sem hægt væri að spara tugi milljóna með því að fækka skrifstofum og millistjórnendum en að lækka t.d. fjárheimildir til mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu.

Einnig mótmælti fulltrúi Flokks fólksins áætlunum um að lækka kostnað á viðhaldi gatnalýsingar vegna LED-væðingar, og sögðu borgina of dimma nú þegar sem gæti skapað hættu fyrir íbúana.

„Kolsvört“ fjárhagsstaða

Kolbrún gerði einnig bókun varðandi árshlutareikning Reykjavíkurborgar fyrir janúar-september 2022 ásamt greinargerð fagsviða og sjóða A-hluta og greinargerð B-hluta fyrirtækja. 

Hún sagði fjárhagstöðu borgarinnar „kolsvarta“ og að skammtímaskuldir væru nú hærri en haldbært lausafé og einnig hafði hún áhyggjur af kostnaði næstu ára vegna langtímaskulda.

mbl.is