Höfum hemil á sundurleysisfjandanum

Jóhannes Nordal, fyrrverandi seðlabankastjóri.
Jóhannes Nordal, fyrrverandi seðlabankastjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ísland hefur góð tækifæri ef við nýtum okkar möguleika af skynsemi. Við þurfum að byggja á nánu samstarfi við nágrannaþjóðir okkar. Og svo verðum við að hafa hemil á sundurleysisfjandanum sem oft hefur leikið okkur grátt.“

Þetta segir Jóhannes Nordal, fyrrverandi seðlabankastjóri, spurður hvort hann sé bjartsýnn fyrir hönd lands og þjóðar. Sjálfsævisaga hans, Lifað með öldinni, er komin út hjá Vöku-Helgafelli.

Fyrst og fremst vildi Jóhannes, sem orðinn er 98 ára, rekja þær miklu þjóðfélagsbreytingar sem áttu sér stað á síðustu öld frekar en að fjalla um sitt eigið líf eins og gjarnan er gert í hefðbundnum sjálfsævisögum. „Bókin hefst um aldamótin 1900 og því er ég að fjalla um tuttugustu öldina sem heild þó ég hafi ekki lifað nema þrjá fjórðu hluta hennar. Þær breytingar sem urðu í byrjun aldarinnar lögðu grunninn að því skipulagi í stjórnmálum og efnahagsmálum sem átti eftir að setja mark sitt á öldina og því var mikilvægt að gera grein fyrir þeim. Segja má að ég hafi einnig upplifað þessar breytingar að einhverju leyti í gegnum frásagnir foreldra minna og fjölbreyttan vinahóp þeirra,“ segir hann. 

Bankastjórar Seðlabankans á fundi með fréttamönnum árið 1973. F.v. Davíð …
Bankastjórar Seðlabankans á fundi með fréttamönnum árið 1973. F.v. Davíð Ólafsson, Jóhannes Nordal, Svanbjörn Frímannsson. Mbl.is/Ólafur K. Magnússon


Í sveit öll sín æskuár

– Er einhver leið fyrir ungt fólk í dag að skilja þessa veröld sem var?

„Það er ugglaust mjög erfitt fyrir ungt fólk að skilja þær miklu þjóðfélagsbreytingar sem hafa orðið á minni ævi og hvernig við fórum úr því að vera fátækt og einangrað ríki yfir í að vera það velferðarsamfélag sem við erum í dag. Þá hafa orðið algjör umskipti í tækni frá því sem var í byrjun aldarinnar. Með því að vera í sveit á sumrin öll mín æskuár kynntist ég verklagi gamla bændaþjóðfélagsins sem hafði verið meira og minna óbreytt frá alda öðli.“

Mörg þeirra verkefna sem Jóhannes tókst á við á sinni starfsævi eru ennþá í brennidepli. Eitt þeirra er verðbólgan sá gamli draugur, sem enn á ný er byrjaður að ríða húsum. „Staðan er margslugnin enda heimurinn stór og flókinn,“ segir Jóhannes. „Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir alþjóðlegum áhrifum og hvernig þau takmarka að vissu leyti möguleika hverrar þjóðar til að taka sínar sjálfstæðu ákvarðanir. Við Íslendingar höfum gengið í gegnum miklar sveiflur en auðvitað höfum við lært mikið með árunum og styrkt stofnanir okkar til að takast á við efnahagsmálin.“

Nánar er rætt við Jóhannes Nordal í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.  

 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »