„Það er komið nóg“

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði hvað þyrfti til að …
Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði hvað þyrfti til að snúið yrði frá sveltistefnu Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Arnþór

„Það er komið nóg, herra forseti, af stefnu- og ráðaleysi ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum. Hvað þarf til að Framsókn og Vinstri grænir stígi á bremsuna og snúi frá sveltistefnu Sjálfstæðisflokksins?“ spurði Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, heilbrigðisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Vísaði Oddný til uppsagnar Maríu Heimisdóttur, forstjóra Sjúkratrygginga Íslands, sem greint var frá í dag. En María sagði ástæðu uppsagnarinnar vera vanfjármögnun stofnunarinnar. Ekki hefði tek­ist að styrkja rekstr­ar­grund­völl til að ná ásætt­an­leg­um ár­angri svo hægt væri að upp­fylla lög­boðnar skyld­ur og bjóða sam­keppn­is­hæf laun. Hún gæti ekki borið ábyrgð á rekstri Sjúkratrygginga við þær aðstæður. Þá sagði María að fjárveitingar til stofnunarinnar hefðu lækkað frá árinu 2018 ef reiknað væri á föstu verðlagi.

Björn Leví Gunnarsson, benti á að Sjúkratryggingar hefði ekki bolmagn …
Björn Leví Gunnarsson, benti á að Sjúkratryggingar hefði ekki bolmagn til að kostnaðargreina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Oddný rifjaði upp að María hefði sent fjárlaganefnd bréf í haust þar sem hún ítrekaði athugasemdir sínar við vanfjármögnunum stofnunarinnar. Með fjárlagafrumvarpinu væri hins vegar gert ráð fyrir enn meiri niðurskurði sem María og samstarfsfólk hennar teldi að myndi leiða til mikillar skerðingar á þjónustu við landsmenn.

Þá benti Oddný á að samningar við sérfræðilækna og sjúkraþjálfara hefðu verið lausir í fjögur ár og þau sem þyrftu á þjónustunni að halda væru rukkuð um komugjöld. Læknarnir fengju hins vegar einnig greitt frá ríkinu.

Sérfræðilæknir með 700 þúsund á dag

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, spurði Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra einnig út í stöðu Sjúkratrygginga Íslands. Benti hann á að fram hefði komið að stofnunin hefði ekki bolmagn til að kostnaðargreina það sem verið væri að semja um. Sem gerði það að verkum að samningstaðan gagnvart sérfræðilæknum væri ekki góð.

Tók Björn Leví dæmi um að sá sérfræðilæknir sem fengi mest greitt frá Sjúkratryggingum Íslands fyrir hvern vinnudag, fengi rúmar 700 þúsund krónur á dag, að meðaltali.

Willum Þór sagði í svari sínu að Sjúkratryggingar væru að fá viðbótarframlag upp á 100 milljónir króna á næsta ári sem hann vildi meina að skipti máli. Sagði hann framlögin hafa hækkað frá árinu 2017 um 16 prósent og með viðbótarframlaginu væri stofnunin að fá um tvo milljarða á fjárlögum á næsta ári.

Willum Þór Þórsson svaraði óundirbúnum fyrirspurnum í dag.
Willum Þór Þórsson svaraði óundirbúnum fyrirspurnum í dag. mbl.is/Hallur Már

Benti Björn Leví þá að á lækkun rekstrarkostnaðar fyrir næsta ár væri um 200 milljónir og 100 milljóna viðbótarframlag þýddi því skerðingu upp á 100 milljónir. Sem kæmi ofan á erfiða stöðu Sjúkratrygginga fyrir.

„Upplýsingarnar benda til þess að við séum að hella peningum á mjög rangan stað í rauninni í heilbrigðiskerfinu og skiljum Landspítalann eftir með að borga verktakagreiðslur frekar en launagreiðslur,“ sagði Björn Leví.

Bindur vonir við samtal sem er í gangi

Oddný sagði að forstjóri Sjúkratrygginga væru ekki sammála því að 100 milljóna viðbótarframlag væri nóg, enda hefði hún sagt upp störfum eftir að það lá fyrir.

Spurði hún einnig af hverju það hefði tafist svo að semja við sérfræðilækna og tryggja rekstur Sjúkratrygginga.

Willum sagði það ekki bara vegna vöntunar á fjármunum sem samningar hefðu tafist. Sagðist hann binda miklar vonir við samtal sem hefði verið í gangi undanfarnar vikur. Of mikið hefði gliðnað á milli raunkostnaðar og gjaldskrár, en það væri verkefni sem væri verið að vinna í því að bæta og ná saman um.

mbl.is