Ómögulegt að spá fyrir um niðurstöður fundarins

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir í samtali við mbl.is enga leið að spá í hvernig fundur samflots iðn- og tæknigreina, VR, LÍV og Samtaka atvinnulífsins (SA) hjá ríkissáttasemjara fari í dag. 

„Það er ómögulegt að segja,“ segir Ragnar spurður hvernig hann búist við að fundurinn í dag fari en hann hefst klukkan 13:15 og er áætlað að hann standi yfir til klukkan 18.

VR tilkynnti á laugardag að félagið myndi taka höndum saman við samflot iðn- og tæknigreina í kjaraviðræðum. Í dag er því fyrsti formlegi fundurinn hjá ríkissáttasemjara með öllum félögunum. 

„Síðustu dagar hafa bara farið í mikla undirbúningsvinnu fyrir fundinn í dag og í sjálfu sér hef ég engar sérstakar væntingar. Ég á mjög erfitt með að greina í stöðuna hvernig okkar viðsemjendur [SA] koma að borðinu. Það er eiginlega mjög erfitt að ráða í það,“ segir Ragnar. 

Verður eitthvað að gerast fyrir helgi

Hann segir að tímaramminn til að gera samning sé orðinn mjög þröngur. 

„Ef þetta klárast ekki fyrir helgi eða kemst á þann stað að það sé kominn einhver rammi fyrir helgina, þá liggur fyrir að við séum fallin á tíma,“ segir Ragnar.

„Það eru að koma jól og það er heilmikið ferli. Þetta er ekki bara launaliðurinn, það er fullt af öðrum atriðum sem þarf að ræða og ná niðurstöðu í. Sömuleiðis tekur tíma að kynna svona samning og kjósa um hann. Það getum við ekki gert yfir jólahátíðirnar. Þá erum við bara komin inn í janúar. Skammtímasamning þarf að klára fljótt og vel. Þá erum við komin inn í annan fasa, sem er þá langtímasamningur og allt önnur staða.“

Spurður hvort VR og samflot iðn- og tæknigreina fari samstíga inn á fundinn í dag játar hann því. 

„Það er mikil samstaða og samheldni í hópnum. Það boðar gott fyrir fólkið sem við erum í umboði fyrir,“ segir Ragnar að lokum. 

mbl.is