Bendir á ákvæði sem margir leigjendur þekki ekki

Halldór Oddsson, lögfræðingur ASÍ.
Halldór Oddsson, lögfræðingur ASÍ. mbl.is/Unnur Karen

Hámark vantar í húsaleigulögin varðandi hversu lengi hægt sé að vera í tímabundnu sambandi við leigjendur að mati Halldórs Oddssonar, lögfræðings hjá Alþýðusambandi Íslands.

Leigjendur og leigufélög hafa verið í umræðunni og nú síðast beindist kastljósið að íbúðafélaginu Ölmu þegar vakin var athygli á færslu konu á netinu. Sýndi hún bréf frá Ölmu þar sem mánaðarleiga átti að hækka úr 250 þúsund krónum í 325 þúsund. 

„Við könnumst ágætlega við viðlíka mál. Það sem vantar í húsaleigulögin er hámark á hversu oft og lengi þú getur verið með fólk í tímabundnu sambandi. Viðlíka og gildir um ráðningarsamband,“ segir Halldór og hann segist vilja sjá lagabreytingu þess efnis á Alþingi. 

Ákvæði vannýtt

„Við hjá ASÍ myndum alla vega hafa áhuga á að breyta þessu en við erum ekki löggjafinn. Við getum tekið dæmi úr húsaleigulögunum. Í 53. grein húsaleigulaga er ákvæði sem fjallar um forgangsrétt leigutaka. Ég myndi segja að það ákvæði sé vannýtt í húsaleigulögunum. Leigjendur eru stundum í þeirri stöðu tímabundið og fyrir vikið þekkja þeir ekki alltaf lögin.“

Ákvæðið í 53. grein sem Halldór minnist á er eftirfarandi: 

Þegar samningur er endurnýjaður samkvæmt ákvæðum 51. og 52. gr. skal leigufjárhæðin vera sanngjörn og eðlileg í garð beggja aðila. Líkur eru fyrir því að sú leigufjárhæð, sem áður gilti, sé sanngjörn og verður sá sem vefengir það að sýna fram á annað. Aðrir skilmálar, sem settir eru fyrir endurnýjuðum leigusamningi, skulu og gilda svo fremi sem þeir séu ekki ósanngjarnir eða brjóti í bága við góðar venjur í leiguviðskiptum.“

Fyrirsjáanleiki væri í anda laganna

Málið sem Ragnar vakti athygli á getur Halldór ekki rætt í þaula þar sem málið er ekki á hans borði en hann segir spurningar vakna á þessu stigi málsins. 

„Ég hef ekki séð gögnin sem um ræðir umfram það sem Ragnar Þór [Ingólfsson varaforseti ASÍ og formaður VR] setti fram á Facebook. En varðandi stór leigufélög eins og Ölmu, sem á alla vega hundruð íbúða, þá vakna spurningar eins og hvort þau telji sig hafa einhverja ábyrgð um að upplýsa leigjendur um þeirra rétt samkvæmt húsaleigulögum. 

Önnur spurning sem kviknar er hvort það sé vísvitandi gert að tilkynna hækkun þegar minna en þrír mánuðir eru eftir og fresturinn renni út. Leigjandi sé í góðri trú um að hann geti fengið að halda áfram á sömu kjörum.“ 

Að mati Halldórs þurfa hagsmunaaðilar að taka höndum saman og vekja athygli leigjenda á þeim rétti sem þeir hafa samkvæmt lögum. 

„Fyrst það eru dæmi um svona lagað þá er gott að þau komi upp á yfirborðið. Ég held að stjórnvöld, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Neytendasamtökin, Leigjendaaðstoðin, Alþýðusambandið og stéttarfélögin ættu að vekja athygli á þessari reglu ásamt ábyrgum leigusölum sem hafa áhuga á því að hér sé heilbrigður leigumarkaður. Við getum einnig leyft okkur að tala um anda laganna og andi laganna er sá að það eigi að vera einhver fyrirsjáanleiki,“ segir Halldór Oddsson í samtali við mbl.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina