VG gerir sögulega langan fyrirvara

Jódís Skúladóttir gerði grein fyrir fyrirvara VG í ræðu sinni …
Jódís Skúladóttir gerði grein fyrir fyrirvara VG í ræðu sinni í gær.

Þingflokkur Vinstri grænna gerir sögulega langan fyrirvara við frumvarp um breytingar á lögum um lögreglu, að því er fram kom í máli Jódísar Skúladóttur, þingmanns flokksins, á Alþingi í gær, þar sem hún gerði grein fyrir fyrirvaranum.

Frumvarp dómsmálaráðherra felur meðal annars í sér auknar rannsóknarheimildir lögreglu, eða forvirkar rannsóknarheimildir.

Í fyrirvara VG við frumvarpið er meðal annars áréttað að þó gert sé ráð fyrir því að lögregla hafi eftirlit með einstaklingum eða hópum til að sporna við skipulagðri brotastarfsemi eða ógn við öryggi ríkisins eða almennings, skuli lögregla ávallt gæta meðalhófs við beitingu slíkra rannsóknaraðferða. Þeim skuli aðeins beitt þegar það telst nauðsynlegt og aldrei gengið lengra en raunverulegt og rökstutt tilefni sé til.

Þá er þeirri ábendingu beint til allsherjar- og menntamálanefndar að skoðað verði hvort rétt sé að takmarka beitingu slíkra rannsóknar við þau tilvik þegar grunur er um brot sem kunna að varða alvarlegri refsingu að lögum.

Forðast vopnaburð lögreglu

Þrátt fyrir að ekki sé lögð til í frumvarpinu efnisbreyting á lagaramma um vopnaburð lögreglu, vill þingflokkurinn einnig að skoðað verði hvort ráðherra beri að hafa samráð við Alþingi áður en reglur um vopnaburð lögreglu verði settar, komi til þess.

„Þannig hefur hingað til ekki þótt ástæða til að almennir lögreglumenn beri á sér skotvopn við skyldustörf. Til mikils er að vinna fyrir samfélagið allt að svo megi áfram vera,“ segir í fyrirvaranum, en þar er jafnframt tekið fram að forðast skuli það í lengstu lög að vopnaburður lögreglu verði almennur.

Gagnrýna meðferð og vörslu upplýsinga

Tilefni ræðu Jódísar var ný skýrsla ríkissaksóknara um eftirlit með símahlustun og skyldum úrræðum á síðasta ári, sem greint var frá í Morgunblaðinu í gær.

Þar setti ríkissaksóknari fram þunga gagnrýni á lögregluembættin og yfirstjórn lögreglunnar fyrir meðferð og vörslu upplýsinga sem aflað er með símahlustun og skyldum aðgerðum og meint hirðuleysi um að skrá slíkar aðgerðir í málaskrákerfi lögreglunnar.

Í skýrslunni kemur fram að eftirlit ríkissaksóknara hafi leitt í ljós að verulega skorti á að lögreglustjórar og héraðssaksóknari fylgi lögum og fyrirmælum ríkissaksóknara um tilkynningar til sakborninga, eyðingu hlustunargagna og að halda skrá um þá sem hafa haft aðgang að upplýsingum sem aflað hefur verið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert