Rebel Rebel fær fimm milljónir

Lista- og menningarráð Kópavogsbæjar úthlutaði alls fimmtán milljónum til 26 …
Lista- og menningarráð Kópavogsbæjar úthlutaði alls fimmtán milljónum til 26 umsækjenda. Ljósmynd/Aðsend

Lista- og menningarráð Kópavogsbæjar úthlutaði alls fimmtán milljónum til 26 umsækjenda vegna lista- og menningarverkefna sem koma til framkvæmda í bæjarfélaginu á næsta ári.

Í tilkynningu frá Kópavogsbæ segir að ráðinu hafi borist 56 umsóknir og var hæsti styrkur ráðsins kr. 5.000.000 sem Menningarfélagið Rebel Rebel hlaut til að standa fyrir listahátíðinni Hamraborg Festival í ágúst á næsta ári. Þetta er í þriðja sinn sem hátíðin er haldin og hefur henni vaxið fiskur um hrygg frá ári til árs. Aðstandendur hátíðarinnar eru þau Ragnheiður Sigurðardóttir Bjarnason, Joanna Pawlowska, Sveinn Snær Kristjánsson og Snæbjörn Brynjarsson.

Fleiri styrkir til stuðnings listar og menningar

Y gallerý hlaut kr. 1.500.000 til sýningarhalds í Olís bensínstöðinni við Hamraborg en gallerýið hefur fest sig í sessi sem eitt framsæknasta og óvenjulegasta gallerý landsins. Ævintýraleiksýning Guðjóns Davíðs Karlssonar og Þrastar Leó Gunnarssonar um álfa hlaut kr. 1.000.000 en hugmynd þeirra er að sýna fram á möguleika Salarins sem leikhúsvettvangs auk þess að gleðja og skemmta börnum.

Úlfur Eldjárn hlaut kr. 600.000 styrk til að ljúka gerð kvikmyndar um hljóðverkið Hamraborgin - Óður til hávaða sem flutt verður í Salnum á Safnanótt í febrúar 2023. Auk þessara styrkja styður lista- og menningarráð Kópavogsbæjar við fjölbreytta menningarstarfsemi sem bæjarbúum stendur til boða án endurgjalds. Þetta kemur fram í tilkynningu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert