Smáfuglarnir í hættu

Snjótittlingar á Seltjarnarnesi.
Snjótittlingar á Seltjarnarnesi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fuglavernd hefur miklar áhyggjur af smáfuglum í þessari vetrartíð.

„Í þessum frostakafla sem hefur verið er lítið um fæðu fyrir fuglana, og ekki skánar það með öllum þessum nýfallna snjó því það fer svo mikil orka í að halda á sér hita,“ segir Hólmfríður Arnardóttir, framkvæmdastjóri Fuglaverndar í samtali við mbl.is. 

Best að gefa tvisvar á dag

Auk þess segir hún að á meðan ekki er birta nema nokkra tíma á sólarhring sé ekki mikill tími til að leita sér að fæðu heldur.

„Það er mikilvægt að gefa, og best væri ef gefið er tvisvar á dag - við birtingu og svo áður en rökkvar,“ útskýrir Hólmfríður.

Aðgengi að vatni mikilvægt

„Annað sem er mikilvægt er aðgangur að vatni – fuglar þurfa, auk þess að drekka, að þrífa fiðrið reglulega til að halda á sér hita, því hreint fiður er betri vörn og einangrun fyrir kuldanum.“

Hólfríður segir að rennandi vatn er kannski best en það er ekki alstaðar að finna. Hún bendir á  hópinn Fuglafóðrun á Facebook. „Þar eru margar hugmyndaríkir með sniðugar lausnir til að forðast það að vatn frjósi í fuglaböðum og öðrum ílátum.“

Misjafnt er hvað best er að gefa hvaða fuglum.
Misjafnt er hvað best er að gefa hvaða fuglum. mbl.is/Styrmir Kári

Matseðill misjafn eftir tegundum

Hvaða matur hentar smáfuglum?

„Matseðillinn er aðeins ólíkur eftir tegundum en auðnutittlingar eru fræætur og þiggja t.d. sólblómafræ eða fíkjukorn og helst ekki beint af jörðinni á meðan snjótittlingar borða helst af jörðinni.

Auk þess að borða fræ þá borða snjótittlingar líka kurlaðan maís. Þrestir og starar eru sólgnir i feitmeti eins og tólg og kjötsag, fitu blandað við korn eða mjöl eða afgangsbrauð til dæmis. En þarf þó að passa að þeir fái ekki óblandaða fitu í fjaðrirnar. Þessi fuglar þiggja líka ávexti, epli t.d. og rúsínur.“

Hólmfríður bendir á að finna megi upplýsingar um hvað hægt sé að gefa fuglum á heimasíðu Fuglaverndar auk facebook-hópsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert