Lokunarpóstar aftur í vegi rútunnar

Rútan þveraði þjóðveg 1 við Pétursey í gærkvöldi.
Rútan þveraði þjóðveg 1 við Pétursey í gærkvöldi. Ljósmynd/Landsbjörg

Rútunni sem festist í tvígang í gær eftir að bílstjóri hennar hunsaði fyrirmæli um lokanir vega var ekið af stað frá Hótel Dyrhólaey að Jökulsárlóni í morgun, en þjóðvegur 1 á milli Víkur og Kirkjubæjarklausturs hefur verið lokaður í allan dag.

Rúta á vegum Hópbíla þveraði þjóðveg 1 við Pétursey í gær eftir að bílstjóri hennar ók  fram hjá lokunarpóstum. 

Um 30 erlendir ferðamenn voru farþegar í rútunni en eftir að björgunarsveitir losuðu rútuna hlýddi bílstjóri hennar engum tilmælum um lokanir og festi sig aftur við afleggjarann að Hótel Dyrhólaey þar sem rútan þveraði veginn.

Að sögn Jóns Þórs Víglundssonar, upplýsingafulltrúa Slysavarnafélagsins Landsbjargar, skiptu björgunarsveitir sér ekki meira af rútunni eftir það en farþegum rútunnar var komið að Hótel Dyrhólaey þar sem þeir gistu í nótt.

„Björgunarsveitir gátu fundið leið fram hjá henni [rútunni] til þess að koma fólki sem þær voru að koma í gistingu upp að Hótel Dyrhólaey,“ segir Jón Þór í samtali við mbl.is.

„Okkur þykir leitt að fólk virði ekki lokanir en björgunarsveitarfólk hefur ekki valdheimildir og getur ekki stöðvað för þeirra,“ segir Jón Þór.

Enginn á vegum Hópbíla tjáir sig

Samkvæmt heimildum mbl.is var rútan að lokum dregin eftir að hafa staðið föst í einhverjar klukkustundir við afleggjarann að Hótel Dyrhólaey.

Bílstjóri rútunnar hélt áfram sinni för með ferðamennina í morgun en til stóð að fara að Jökulsárlóni.

Óvíst er hvað bílstjóri rútunnar hefur gert þegar komið var til Víkur í Mýrdal þar sem þjóðvegurinn hefur verið lokaður í austurátt í allan dag.

Hvorki framkvæmdastjóri Hópbíla, né nokkur annar starfsmaður fyrirtækisins, hefur viljað tjá sig við fjölmiðla um ferðir rútunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert