Verið að endurvekja gamalt orð

Eiríkur Rögnvaldsson prófessor emeritus ræddi við mbl.is um fiskara, fiskimenn …
Eiríkur Rögnvaldsson prófessor emeritus ræddi við mbl.is um fiskara, fiskimenn og sjómenn. Samsett mynd

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, segir að ef fólk telji það æskilegt að draga úr karllægni málsins þurfi það að gerast í skrefum. Skiptar skoðanir eru á þeirri ákvörðun að skipta út orðinu fiskimaður fyrir fiskari í lögum.

„Við megum ekki hugsa hlutina þannig að ef við gerum ekki allt þá megi ekkert gerast. Það er hægt að setja það í samhengi við móttöku flóttafólks, af hverju að taka á móti hundruðum flóttafólks þegar það eru tugmilljónir á flótta?“ segir Eiríkur.

„Þessi breyting á fiskimaður yfir í fiskari er í samræmi við það sem er verið að gera erlendis í alþjóðalögum og reglugerðum. Það er alveg ljóst að þetta verður ekki gert í einni svipan og er ekki einfalt mál,“ bætir hann við.

150 voru skráðir fiskarar en sjö fiskimenn

Spurður hvort næst á dagskrá í beinu framhaldi verði ekki að breyta „sjómaður“ í „sjóari“ segir Eiríkur að það sé alls ekki sjálfgefið. 

„Í fyrsta lagi er sjóari allt annars konar orð en sjómaður, þar sem sjóari er mun óformlegra orð. Það er hins vegar enginn slíkur munur á fiskimaður og fiskari. Þó svo fiskari hafi ekki verið notað síðustu 100 ár þá var það notað frá 16. öld og fram á 19. öld.

Þetta voru samheiti og hefur verið bent á það að í manntali frá 1845 þar sem starfsheiti fólks voru skráð að um það bil 150 voru skráðir fiskari en einungis sjö skráðir fiskimaður. Þar er enginn sjómaður en elsta dæmið um það orð er ekki eldra en frá 1830 og á 19. öld var sjófólk einnig notað.“

Rétt mál er málið sem fólk talar

Eiríkur segir að verið sé að endurvekja gamalt orð og gamla hefð með því að taka upp orðið fiskari í stað samheitisins fiskimaður.

Bendir hann á að þrátt fyrir að eitthvað sé innleitt í lög þá sé það í höndum málsamfélagsins að innleiða breytingar, þar sem þá muni málfar breytast smám saman. Því til stuðnings vísar hann til orða Magnúsar Finnbogasonar sem birtust árið 1953 í blaðinu Einingu:

„Mikill fjöldi málvillna hefur smám saman festzt í íslenzkri tungu, svo að fáir vita, að um málvillur er að ræða.“

Spyr Eiríkur hvort eitthvað geti verið „málvilla“ ef engum er ljóst að það sé villa.

„Er það ekki einmitt skilgreiningaratriði á réttu máli, að það er málið sem fólk talar?“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert