Allt of margir sjúklingar

Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgar­svæðins, situr til …
Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgar­svæðins, situr til vinstri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fólk virðist hafa brugðist vel við ákalli Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, um að leita til upp­lýs­inga­miðstöðvar heilsu­gæsl­unn­ar áður en haldið yrði á bráðamót­töku eða heilsu­gæslu vegna veik­inda.

„Fólk sem er að nýta sér bráðaþjónustuna er sannarlega veikt. Við viljum taka á móti því fólki,“ segir Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. 

Hún segir álagið engu að síður gríðarlegt. „Það er ennþá mikið um umgangspestir þó þetta virðist aðeins vera að róast. Það eru langar biðraðir alls staðar.“

Það er vandrataður vegur, að biðla til fólks að stilla komum sínum á heilbrigðisstofnanir í hóf. Sigríður Dóra segir þó ekki hafa borið mikið á því að fólk veigri sér of lengi við það að leita sér hjálpar. 

„Það á auðvitað enginn að koma að lokuðum dyrum.“

Heilsuvera mikil búbót

Sigríður Dóra telur fólk vera að nýta sér Heilsuveru í auknum mæli. Þar geti það fengið leiðbeiningar og ráð í gegnum síma og á netinu. „Fólk kann að meta það, sér að þetta er góð þjónusta og er að nýta sér það.“

Með upplýsingamiðstöð heilsugæslunnar er hægt að bóka fólk á dagvaktir og þá liggur fyrir hvers vegna það er að koma. Er þetta mikil búbót og eykur hagkvæmni, enda felst tímasparnaður í því að hver heimsókn byrji ekki sem óskrifað blað. 

Ekki verið að demba fólki á heilsugæsluna

Mikið flæði er milli bráðamóttökunnar og heilsugæslustöðvanna. „Bráðamóttakan vísar sumum frá til okkar og á sama hátt sjáum við oft fólk sem þarf að fara á bráðamóttökuna, og sendum það þangað.“

Sigríður segir sátt og skilning ríkjandi milli deildanna, en ekki hafi verið kvartað yfir því að heilsugæslan vísi fólki að óþörfu á bráðamóttökuna. „Þau vita líka hvað við getum gert og vísa ekki til baka erindum, nema þeim sem við ráðum við faglega.“

Heilsugæslan upplifir stöðuna því ekki á þann veg að verið sé að demba á hana fólki sem ætti að fá þjónustu annars staðar. 

Samtal er þó í gangi um að finna leiðir til að beina fólki betur á réttan stað strax í upphafi, en það getur verið hvimleitt þegar fólk leitar á móttökur heilbrigðiskerfisins með tilviljanakenndum hætti. 

Vantar fólk og fjármuni

Engu að síður eru sjúklingar allt of margir í heildina, miðað við heilbrigðisstarfsfólk, að sögn Sigríðar. 

„Þegar staðan er þannig þá ræður enginn við þetta. Heilbrigðisstarfsfólk er svo áhugasamt og metnaðarfullt í sínu starfi að það sinnir verkefnum oft langt umfram það sem það hefur orku til, en það er áhyggjuefni.“

Sigríður segir skorta fjármuni og fólk. „Okkur vantar starfsfólk, lækna og hjúkrunarfræðinga, og pening til að ráða inn fleiri fólk, svo heilsugæslan geti sinnt þessu hlutverki sem henni er falið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina