Æskilegt að ríkið vinni meira með einkaaðilum

Freyr Hólm Ketilsson fer yfir sviðið í dag.
Freyr Hólm Ketilsson fer yfir sviðið í dag. Ljósmynd/Aðsend

Alla vega 36 fyrirtæki eru starfandi í líftækni hérlendis og 31 í heilsutækni samkvæmt nýrri skýrslu sem Heilsutækniklasinn lét gera og kynnti í dag. Tekið er fram að listinn sé líklega ekki tæmandi. 

„Skýrslan er hugsuð sem greining á því hver staðan er í heilbrigðisgeiranum í dag. Hversu mörg fyrirtæki eru í heilsutækni hérlendis? Hversu mörg eru í líftækni? Hvernig stöndum við gagnvart Norðurlöndunum?,“ segir Freyr Hólm Ketilsson, framkvæmdastjóri Heilsutækniklasans í samtali við mbl.is. 

„Mikilvægast er að til staðar sé kortlagning á því hvaða fyrirtæki eru í stoðumhverfinu og í fjárstoðumhverfinu. Greinin verður miklu sýnilegri og aðgengilegri með því. Eitt af markmiðunum með því að gera skýrsluna er að meira samtal eigi sér stað um greinina og greinin eigi sér málsvara líkt og leikjaiðnaðinum og fjártæknifyrirtækjunum. Í þeim geirum hafa menn verið farsælir í því að búa til lausnir og næla í gott og hæft starfsfólk. Til að auka nýsköpun og nýliðun þarf að fá fleiri til að vinna í greininni.“

Fundargestir á stofnfundi Heilsutækniklasans í október.
Fundargestir á stofnfundi Heilsutækniklasans í október. Ljósmynd/Aðsend

Áskoranir fylgja hækkandi lífaldri

Freyr segir æskilegt að ríki vinni betur með einkaaðilum í þessum geira en gert er í dag. Að öðrum kosti muni heilbrigðiskerfið ekki geta viðhaldið þjónustustiginu. 

„Við vitum að helstu áskoranir hjá heilbrigðiskerfum heimsins á næstu árum er hækkandi lífaldur og lífstílstengdir sjúkdómar. Við reynum að flýta fyrir því að hið opinbera vinni meira og betur með einkaaðilum en það gerir í dag þótt við séum ekki að berjast fyrir einkarekstri í kerfinu. Heilbrigðiskerfið mun ekki geta viðhaldið sínu þjónustustigi nema til komi utanaðkomandi aðstoð við að búa til fleiri lausnir til að aðstoða skjólstæðinga kerfisins. Ég held að allir séu sammála um það,“ segir Freyr og liðka þurfi fyrir því að rannsóknir og þróun skili sér út í rekstur.  

„Stóri punkturinn er kannski sá að á Íslandi erum við ekki frábrugðin Norðurlöndunum. Við stöndum mjög vel varðandi grunnrannsóknir og þróun en svo myndast flöskuháls þegar koma þarf verkefnum úr þróun og í almennan rekstur eða út á markaðinn. Segja má að hið opinbera er að ákveðnu leyti flöskuháls þegar kemur að því að innleiða lausnir,“ segir Freyr Hólm Ketilsson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert