Allstórt snjóflóð við Flateyri „kom á óvart“

Frá Flateyri. Mynd úr safni.
Frá Flateyri. Mynd úr safni. mbl.is/Hallur Már

Snjóflóðaratsjá á Flateyri nam það í gærkvöldi, klukkan 23.12, þegar allstórt snjóflóð féll í Miðhryggsgili innan við bæinn sem stöðvaðist um 40 metra ofan við veg.

Í tilkynningu frá Veðurstofunni kemur fram að mesti hraði flóðsins hafi mælst um 54 metrar á sekúndu.

Óli­ver Hilmarsson, sér­fræðing­ur á sviði snjóflóða á of­an­flóðavakt Veður­stof­unn­ar, greindi frá flóðinu í samtali við mbl.is fyrr í dag.

„Flóðið féll ofan við veg en flóð á þessu svæði geta ógnað Flat­eyr­ar­vegi. Veg­ur­inn hafði verið á óvissu­stigi áður en hann var kom­inn af óvissu­stigi þegar flóðið féll og ekki var mikið að veðri þegar flóðið fór af stað.“

Þessi skýringarmynd er teiknuð eftir gögnum frá ratsjánni og sýnir …
Þessi skýringarmynd er teiknuð eftir gögnum frá ratsjánni og sýnir útbreiðslu flóðsins. Grafík/Veðurstofan

Svipaðar aðstæður geti leynst víða

„Snjóflóðið kom á óvart þar sem veðrið var að mestu gengið niður en er að sama skapi vísbending um að það þurfi ekki mikið álag til að setja af stað snjóflóð,“ segir í tilkynningunni.

Búast megi við að svipaðar aðstæður geti verið til staðar víða á landinu þar sem nýr snjór hefur fallið og safnast upp. Útivistarfólk er hvatt til að fara með gát ef ferðast er um brattar hlíðar með nýjum snjóalögum.

mbl.is