Landvernd segir Guðlaug ekki skilja vandann

Guðlaugur Þór Þórðarson er umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson er umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stjórn Landverndar hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem segir að stjórnin telji loftmengun á höfuðborgarsvæðinu „algerlega óviðunandi og kallar eftir aðgerðum“.

Stjórn Landverndar telur að „viðbrögð ráðherra umhverfisverndar benda til þess að hann geri sér ekki grein fyrir umfangi vandans og í hverju hann felst“.

Guðlaugur Þór Þórðarson er umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra en í yfirlýsingunni segir að ráðherra bregðist þeirri frumskyldu sinni að vernda heilsu og umhverfi Íslendinga. 

Borgin bendi á ráðherra

Þá segir að íbúar á höfuðborgarsvæðinu hafi ítrekað upplifað óþolandi ástand vegna loftmengunar, og íbúar á Akureyri hafi heldur ekki sloppið við alvarlegar afleiðingar mengunarinnar. 

Hættuleg loftmengun takmarkar frelsi íbúa með undirliggjandi sjúkdóma, veikir einstaklingar þjást og fjöldi Íslendinga fellur frá vegna loftmengunar. Sjálfsvitund landsmanna um að þeir búi í heilnæmara umhverfi en flestar aðrar þjóðir er brostin.

Bent er á að yfirvöld í Reykjavík segist bíða eftir reglugerð frá ráðherra sem heimili þeim að grípa til aðgerða. Á meðan hvetji ráðherra sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu til að kaupa umhverfisvænni farartæki. 

Viðbrögð borgaryfirvalda bera vott um vanmátt og langvarandi doða þegar kemur að því að vernda loftgæði á höfuðborgarsvæðinu.

Stjórnin nefnir að nauðsynlegt sé að takmarka óþarfa notkun nagladekkja og efla almenningssamgöngur. 

Hér á landi virðist sem margir ráðamenn loki bæði eyrum og augum fyrir því mikilvæga verkefni sem blasir við.

mbl.is