Hálfgerð pílagrímsför að fara til Havaí

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur.
Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur. mbl.is/Sigurður Bogi

„Fyrir þá sem eru í eldfjallafræði má segja að þetta sé Mekka,“ segir Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur. Hann er núna staddur á eyjunni Havaí þar sem hann sér glitta í eldfjallið Kilauea gjósa í fjarska.

Hann segir ferð til eyjaklasans vera hálfgerða pílagrímsför fyrir eldfjallafræðinga og í raun alla þá sem hafa áhuga á náttúruvísindum.

Þorvaldur stundaði doktorsnám á Havaí og segist hafa lært allt sem hægt er að vita um hraunflæði á eyjunni, þar sem hann fylgdist með hrauninu flæða tímum saman með kaffibolla í hönd.

Hann segir lærdóminn á Havaí hafa búið sig vel undir eldgosin sem urðu á Reykjanesinu á síðustu árum, fyrst í Geldingadölum og svo Meradölum. 

Hálfgerður heimalningur á eyjunni

„Ég er hálfgerður heimalningur hérna, ég er með annan fótinn hér. Þetta er smá pílagrímsför fyrir eldfjallafræðinga. Eldgoseftirlit byrjar hér á Havaí svo við erum að nota skjálftamæla og hallamæla, sem byrja hérna með eldgosamiðstöðinni sem hefur verið hérna frá 1912,“ segir hann.

„Meðan ég var hérna í námi og eftir námið kom ég hérna reglulega og fylgdist með hraunflæðinu úr 35 ára gosinu og þar lærði ég það sem ég veit um hraun. Maður sat bara hérna í rólegheitunum með kaffibolla og horfði á hraunflæðið.“

Hann tekur fram að sá lærdómur hafi verið langbesti undirbúningurinn fyrir eldgosin á Reykjanesinu. 

„Þessi skilningur sem við höfum í dag á hraunflæði – hann kemur frá þessu gosi.“

Í sporum Mark Twain

Eins og stendur gýs úr eldfjallinu Kilauea á stærstu eyjunni á Havaí en Þorvaldur segir enga leið til að komast nálægt gosinu eins og stendur vegna mengunar og dáist því að eldgosinu úr fjarska.

„Það er svo erfitt að komast að þessu. Ég hef bara fylgst með þessu, þú sérð þetta mjög vel frá hóteli sem hérna. Þetta er hótelið sem Mark Twain sat við og lýsti eldgosinu á sínum tíma á 19. öldinni.“

Það sé stórbrotin stund að upplifa það sama og rithöfundurinn góðkunni.

Gaus bara inni í miðri byggð

Þorvaldur bendir á að nánast sífellt standi yfir eldgos á Havaí og minnist á að árið 2018 lauk eldgosi sem hafði staðið yfir í 35 ár en gosið var kennt við Pu'u'ō'ō og kom úr sama eldfjalli og gýs núna. 

Hann bætir við að virknin hafi í kjölfarið færst neðar á svæði þar sem byggð er á eyjunni og að sama ár og gosinu lauk 2018 hafi hafist gos inni í miðri íbúðarbyggð í hverfinu Leilani Estates

„Þetta er hverfi með stórum lóðum og stórum húsum, ekki ósvipað Tjarnarbyggðinni á Selfossi. Það gaus bara inni í miðri byggð. Það fóru 400 hús undir gíga og hraun. Menn stóðu bara út á svölum og horfðu á eldgos í garðinum hjá nágranna sínum.“

Settu fótinn aftur saman

Þorvaldur segist hafa kynnst manni á Havaí sem hafði lent heldur illa í því í eldgosinu í hverfinu árið 2018.

„Hann var að verja húsið frá bombum frá gígnum og hann missti næstum fótinn þegar ein bomban fór á fótinn hans. Löppin hékk bara á einhverjum þráðum og hann var keyrður á spítala þar sem þeir settu fótinn á honum aftur saman. Hann getur gengið í dag en ekkert sérstaklega vel,“ segir hann og bætir við að maðurinn sé heppinn að vera á lífi.

Þorvaldur bendir þá á að sá bær sem er næst þessari sviðsmynd sem átti sér stað 2018 sé Grindavík.

„Það gæti orðið gos rétt hjá Grindavík. Grindavík eða Mývatnssveitin – það gæti gosið þar líka.“

mbl.is