Aukin snjóflóðahætta á föstudag

Algengast er að snjóflóð fari af stað þar sem hallinn …
Algengast er að snjóflóð fari af stað þar sem hallinn er meiri en 30 gráður og algengt er að þau verði af mannavöldum. mbl.is/Árni Sæberg

Á föstudag er spá miklum hlýindum með suðaustan 15-23 m/s um morguninn með slyddu eða rigningu og hlýnandi veðri, en þurrt á Norðurlandi. Á vef Veðurstofunnar segir að hlýindin á föstudag gætu komið af stað votum flóðum og að hætta sé á að fólk á ferð í brattlendi setji af stað snjóflóð.

Harpa Grímsdóttir, hópstjóri ofanflóðadeildar Veðurstofu Íslands, segir að þegar það hlýni svona snögglega þá aukist óstöðugleikinn tímabundið ef snjór er til fjalla.

„Það getur verið hætta á votum flóðum þegar það hlýnar snögglega og hitinn fer upp fyrir frostmark eins og spár sýna fyrir föstudag. Þegar það eru mikil hlýindi og rigning getur verið hætta á krapaflóðum sem eru þá af náttúrulegum orsökum,“ segir Harpa.

Snjóflóð af mannavöldum algeng

Hún segir að ef fólk ætli sér að ferðast í brattlendi þar sem það er snjór þurfi það að meta aðstæður.

„Ef fólk ætlar að ferðast í brattlendi að vetrarlagi er mikilvægt að fólk viti hvað það er að gera og sé með rétta búnaðinn. Fólk getur dregið mikið úr hættunni með því að forðast brattar brekkur, algengast er að snjóflóð fari af stað þar sem hallinn er meiri en 30 gráður. Það er algengast að fólk sem er á ferð í fjalllendi og lendir í snjóflóðum hafi komið flóðinu sjálft af stað eða einhver í hópnum,“ segir Harpa.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert